Stuðningur við tillögu hefði þýtt stjórnarslit

Ásmundur Daðason, þingmaður Vinstri grænna, sagði á Alþingi í dag að hann ætlaði að styðja tillögu Sjálfstæðisflokks um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu vegna ESB. Þá hafi borist honum til eyrna að það gæti orðið til stjórnarslita. Hann mun því ekki taka þátt í umræðunni frekar í dag.

Ásmundur sagði þingið í gíslingu í ESB-málinu, og ef hver og einn þingmaður myndi fylgja samvisku sinni væri meirihluti fyrir tvöfaldri atkvæðagreiðslu um málið. Hann hvatti jafnframt þingmenn til að styðja tillögu um tvöfalda atkvæðagreiðslu.

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks, óskaði eftir því að forseti Alþingis beiti sér fyrir því að þingmenn verði ekki kúgaðir. Hann minntist þess þegar hann var í sporum Ásmundar, en þá var þingi frestað af forseta Alþingis um einn dag

Fleiri þingmenn hafa kvatt sér hljóðs og m.a. talað um kúgun Samfylkingarinnar á Vinstri grænum.  Þór Saari, þingmaður Borgarahreyfingar, stakk upp á því að leynileg atkvæðagreiðsla yrði tekin upp í málinu svo að þingmenn geti fylgt samvisku sinni. 

mbl.is

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær