Ráðherrar Samfylkingar róa að því öllum árum að hægt verði að afhenda umsókn um aðild að ESB formlega á fundi utanríkisráðherra aðildarríkjanna í Brussel 27. júlí næstkomandi, skv. heimildum Morgunblaðsins. Hins vegar funduðu þrír þingmenn stjórnarandstöðu og einn þingmaður VG í gærkvöld um breytingartillögu sem gerir ráð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort fara eigi í aðildarviðræður, skv. fréttum RÚV í gærkvöld. Skv. heimildum Morgunblaðsins úr röðum stjórnarandstöðunnar stungu „menn saman nefjum í allan [gær]dag“ um málið.
Ögmundi Jónassyni heilbrigðisráðherra sagðist í gærkvöld ekki vera kunnugt um neinar formlegar viðræður um slíkt. Spurður um óformlegar viðræður sagði hann: „Því verða þeir að svara sem í hlut eiga ef um slíkt er að ræða, ég veit að það eru ýmsir í þingflokki VG sem eru á þessum buxunum,“ en undirstrikaði að slíkt væri á einstaklingsbundnum forsendum. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagði það vitað að innan VG væru einstaklingar sem hefðu aðra skoðun en Samfylkingin á málinu. „Hitt er þó í gadda slegið hvernig stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar tekur á þessu máli og ég á ekki von á öðru en að við það verði staðið. [...] Það yrðu mér vonbrigði ef þingmenn í samstarfsflokki mínum ættu aðild að slíkri tillögu