Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í framsöguræðu sinni um ESB-aðild á Alþingi það sæta furðu að umræðan hafi að mestu snúist um annað en kjarna málsins, þ.e. að ganga í Evrópusambandið. Hann telur almennan stuðning um ESB-aðild ekki fást nema fyrir hendi sé breið pólitísk samstaða.
Hann sagði „suma segja“ að það þurfi að vera breiður pólitískur stuðningur um ESB, sem og almennur stuðningur þjóðarinnar, í tvö ár áður en svona mál komast í gegn. Hann gagnrýndi jafnframt að ríkisstjórnarflokkarnir ætluðu sér ekki að bera pólitíska ábyrgð á málinu. Fyrst hefði því verið skotið til Alþingis til að greiða úr deilum stjórnarflokkanna og svo eigi að bera málið ábyrgðarlaust undir þjóðina til að klára.
Bjarni sagði samt ýmislegt í ESB-aðild sem sé eftirsóknarvert, s.s. aðild að myntbandalagi Evrópu. Þá sagðist hann geta skrifað undir flest það sem Evrópuþjóðirnar stefna að í fjölmörgum málum og að á sinn hátt væri það betra fyrir Íslendinga að eiga rödd í Brüssel, ekki síst í ljósi þess hvernig Íslendingar framkvæma EES-samninginn. Það væri betra en það fyrirkomulag sem byggt er inn í EES-samninginn.
Hann bætti því svo við að það væri ástæða til að staldra við og skoða þá þætti ESB sem koma íslensku þjóðinni illa, s.s. í sjávarútvegi. Vandlega þurfi að meta hvort kostirnir vegi upp á móti ókostunum.
Bjarni sagði sína sannfæringu ekki hafa breyst, hagsmunum Íslands væri „ágætlega“ borgið utan ESB. Hann bætti hins vegar við að afstaða Sjálfstæðisflokksins væri ekki meitluð í stein og ekki hægt að líkja við trúarbrögð. Afstaða flokksins byggir á hagsmunamati sem sífellt er í endurskoðun.