Ekki rætt um kostnað við ESB-aðildarviðræður

mbl.is/Ómar

„Íslenska þjóðin á að fá að kjósa um það hvort eyða á eitt þúsund milljónum króna í aðildarviðræður við Evrópusambandið,“ sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður sjálfstæðisflokksins. Hún sagði að ekki hefði verið rætt í utanríkismálanefnd um þann kostnað sem hlýst af aðildarviðræðum við ESB.

Í áliti meirihluta utanríkismálanefndar er fjallað um mat utanríkisráðuneytisins á kostnaði við aðildarviðræður, sem var yfirfarið af fjármálaráðuneyti. Í minnisblaði ráðuneytisins kemur fram að kostnaður sem falli undir ráðuneytið sé metinn á tæpar 800 milljónir króna fyrir tímabilið 2010–2012. Svarar það til ríflega 260 milljóna á ári að meðaltali, en lunginn af þeim kostnaði felst í þýðingum reglna ESB yfir á íslensku sem ekki hafa verið þýddar á grunni EES-samningsins.

Utanríkisráðuneytið hyggst að verulegu leyti mæta þeim aukna kostnaði sem í aðildarviðræðum felst með hagræðingu. Árið 2010 gæti á þann hátt falið í sér raunkostnaðarauka um 200 milljónir en árið 2011 telur ráðuneytið að kostnaðaraukinn yrði minni en 200 milljónir króna.

Í áliti meirihlutans segir að kostnaður annarra sviða stjórnsýslunnar muni ráðast af skipulagi aðildarviðræðna innan stjórnarráðsins og framgangi þeirra. Þegar komi að því að áætla hugsanlegan aukinn kostnað sem falla kann til í öðrum ráðuneytum og stofnunum vegna mögulegra aðildarviðræðna séu mál háð meiri óvissu.

Þá segir að búast megi við að ráðuneyti og stofnanir leysi verkefnið að mestu innan þess fjárhagsramma sem þeim er nú ætlaður og forgangsraði verkefnum með hliðsjón af því. Meirihluti utanríkismálanefndar telur þó ekki unnt að útiloka að einstök ráðuneyti, sem sérstaka ábyrgð munu bera í aðildarviðræðum, þurfi að styrkja starfsemi sína tímabundið meðan á viðræðum stendur.

Má þar helst nefna sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og iðnaðarráðuneytið. Auk þess má ætla að kostnaður falli til í einstökum ráðuneytum er lýtur að sérfræðikostnaði og ráðgjöf. Þá er óhjákvæmilegt að sérstakur ferðakostnaður vegna aðildarviðræðna verður nokkur fyrir flest ráðuneyti og einstakar stofnanir þeirra. Hver slíkur sérstakur kostnaður vegna ráðgjafar og ferðakostnaðar kann að verða veltur á skipulagi og fyrirkomulagi viðræðna og hve langan tíma þær munu taka. Er því á þessari stundu erfiðleikum bundið að gefa nákvæma tölu um þennan kostnað en þó telur meiri hlutinn ekki óvarlegt að áætla að miðað við þann tíma sem áætlað er að viðræðurnar muni taka geti verið um að ræða kostnað sem nemi a.m.k. 100 milljónir króna.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þau Einar K. Guðfinnsson og Ragnheiður Elín Árnadóttir, gagnrýndu mat ráðuneytisins harðlega í umræðum í þinginu í kvöld. Þau töldu marga þætti stórlega vanmetna í kostnaðarmatinu, röktu um það fjölmörg dæmi og bentu jafnframt á að ekki hefði fengist nein umræða um þessi gögn í utanríkismálanefnd. Undir þetta tók Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins í umræðunni. Fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna svöruðu ekki gagnrýni þingmannanna.

Síðari umræða um þingsályktunartillögu stjórnarflokkanna um ESB-aðild hófst um hádegi í gær en þingfundi var frestað laust fyrir miðnætti. Ræðutími tvöfaldaður að ósk fjölmargra þingmanna. Enn eru 24 þingmenn á mælendaskrá en hver um sig má tala í 40 mínútur í senn. Einn þingmaður hefur sett sig á mælendaskrá í annað sinn og má tala í 20 mínútur. Þingfundur hefst á ný klukkan 10:30 í fyrramálið.

Tillaga um aðildarumsókn að ESB

Álit meirihluta utanríkismálanefndar

Álit 1. minnihluta utanríkismálanefndar

Álit 2. minnihluta utanríkismálanefndar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær

Loka