Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, sagði á Alþingi í dag að henni hefði borist til eyrna að skýrsla hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðu íslenska landbúnaðarins innan ESB væri trúnaðarmál og yrði ekki kynnt þingmönnum.
Skýrslan var unnin fyrir utanríkisráðuneytið og sagði Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, fyrir hádegið að hún yrði kynnt í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd í hádeginu. Vigdís kom svo upp í andsvörum við ræðu Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokks, í hádeginu og sagðist hafa spurnir af því að skýrslan hefðir verið gerð að trúnaðarmáli.
Vigdís bætti því við að mikið uppnám væri meðal þingmanna yfir þessum fréttum. Ragnheiður Elín krafðist þess að gert yrði hlé á fundinum á meðan þingmenn réðu ráðum sínum hvernig bregðast eigi við. Forseti gerði í kjölfarið 30 mínútna hlé á þingfundi.