Landbúnaður ekki tryggður í ESB-tillögu

„Ekki er hægt að sjá að í nefndaráliti meirihluta utanríkismálanefndar um þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu, sé í neinu tilfelli gengið svo langt að setja fram skýlausar kröfur um niðurstöður aðildarviðræðna til varnar landbúnaði.“ Þetta segir m.a. á vef Bændasamtakanna. Þá segir að í umsögn nefndarinnar sé hvergi fjallað um mikilvægi starfa tengd íslenskum landbúnaði, til að mynda sé hvergi minnst á úrvinnsluiðnaðinn.

Á vef Bændasamtakanna er fjallað um nefndarálit meirihluta utanríkismálanefndar um ESB-tillögu ríkisstjórnarinnar. Þar segir að þó lögð sé áhersla á mikilvægi íslensks landbúnaðar í umsögn nefndarinnar sé vart hægt að segja að slegnir séu þeir varnaglar sem veitt gætu landbúnaðinum skjól ef til aðildar kæmi. Farið sé orðum um mikilvægi sjálfbærrar þróunar í matvælaframleiðslu, byggðatengd sjónarmið og umhverfisþætti en ekki er hægt að sjá að í neinu tilfelli sé gengið svo langt að setja fram skýlausar kröfur um niðurstöður aðildarviðræðna til varnar landbúnaði.

Tollvernd forsenda fyrir óhögguðum landbúnaði

„Í umsögninni er lögð áhersla á að skýr stuðningur við mjólkurframleiðslu og annan hefðbundinn búskap verði eitt af samningsmarkmiðum Íslands. Það á t.d. við um afnám tolla þar sem tollverndin hefur verið ein af stoðum íslensks landbúnaðar, ekki síst hefðbundins landbúnaðar. Er því mikilvægt að leita allra leiða til að búa svo um hnúta að stuðningi við landbúnað verði sem minnst raskað þótt ljóst sé að ákveðin breyting í uppbyggingu styrkjakerfisins muni eiga sér stað með aðild að sambandinu,“ segir í umfjöllun Bændasamtakanna.

Talsmönnum bænda er ekki ljóst af þessum orðum hvort meirihluti utanríkisnefndar telur að Ísland geti viðhaldið tollvernd til handa innlendum landbúnaðarafurðum ef gengið verður í sambandið, þó rætt sé um að slíkt verði eitt af samningsmarkmiðum Íslands.

„Ekkert land sem gengið hefur í Evrópusambandið hefur fengið undanþágur frá frjálsu og óhindruðu flæði vöru milli landa, enda eru slík tollalaus og óheft viðskipti ein af grunnstöðum Evrópusambandsins,“ segir í umfjöllun Bændasamtakanna.

Þá segir að Finnar hafi í aðildarviðræðum sínum við ESB reynt að ná fram undanþágu sem leyfa myndu áframhaldandi tollvernd, í það minnsta um stundarsakir en ekki tekist.

„Bændasamtökin hafa í málflutningi sínum lagt áherslu á að tollverndin sé landbúnaðinum í það minnsta jafn mikilvæg og stuðningur ríkisins við búgreinarnar. Falli tollvernd niður má því leiða líkum að því að íslenskur landbúnaður hlyti þung högg sem valda myndu því að hann legðist af í þeirri mynd sem er í dag,“ segir á bondi.is

Ekki fjallað um landbúnað í heild

Talsmenn bænda gagnrýna og að ekki skuli fjallað um mikilvægi tengdra starfa en um tíu þúsund manns hafa beina atvinnu af íslenskum landbúnaði. Þá segir að tilfinnanlega skorti að fjallað sé um landbúnaðinn í heild í umsögninni, en megináhersla er lögð á mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt. Ekki sé fjallað að neinu marki um aðstæður svínabænda og kjúklingabænda, en færð hafi verið rök fyrir því að þær greinar muni verða fyrir mestum skakkaföllum við inngöngu.

Sjá nánar á bondi.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær