Landbúnaður ekki tryggður í ESB-tillögu

„Ekki er hægt að sjá að í nefndaráliti meiri­hluta ut­an­rík­is­mála­nefnd­ar um þings­álykt­un­ar­til­lögu rík­is­stjórn­ar­inn­ar um aðild­ar­um­sókn að Evr­ópu­sam­band­inu, sé í neinu til­felli gengið svo langt að setja fram ský­laus­ar kröf­ur um niður­stöður aðild­ar­viðræðna til varn­ar land­búnaði.“ Þetta seg­ir m.a. á vef Bænda­sam­tak­anna. Þá seg­ir að í um­sögn nefnd­ar­inn­ar sé hvergi fjallað um mik­il­vægi starfa tengd ís­lensk­um land­búnaði, til að mynda sé hvergi minnst á úr­vinnsluiðnaðinn.

Á vef Bænda­sam­tak­anna er fjallað um nefndarálit meiri­hluta ut­an­rík­is­mála­nefnd­ar um ESB-til­lögu rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Þar seg­ir að þó lögð sé áhersla á mik­il­vægi ís­lensks land­búnaðar í um­sögn nefnd­ar­inn­ar sé vart hægt að segja að slegn­ir séu þeir varnagl­ar sem veitt gætu land­búnaðinum skjól ef til aðild­ar kæmi. Farið sé orðum um mik­il­vægi sjálf­bærr­ar þró­un­ar í mat­væla­fram­leiðslu, byggðatengd sjón­ar­mið og um­hverf­isþætti en ekki er hægt að sjá að í neinu til­felli sé gengið svo langt að setja fram ský­laus­ar kröf­ur um niður­stöður aðild­ar­viðræðna til varn­ar land­búnaði.

Toll­vernd for­senda fyr­ir óhögguðum land­búnaði

„Í um­sögn­inni er lögð áhersla á að skýr stuðning­ur við mjólk­ur­fram­leiðslu og ann­an hefðbund­inn bú­skap verði eitt af samn­ings­mark­miðum Íslands. Það á t.d. við um af­nám tolla þar sem toll­vernd­in hef­ur verið ein af stoðum ís­lensks land­búnaðar, ekki síst hefðbund­ins land­búnaðar. Er því mik­il­vægt að leita allra leiða til að búa svo um hnúta að stuðningi við land­búnað verði sem minnst raskað þótt ljóst sé að ákveðin breyt­ing í upp­bygg­ingu styrkja­kerf­is­ins muni eiga sér stað með aðild að sam­band­inu,“ seg­ir í um­fjöll­un Bænda­sam­tak­anna.

Tals­mönn­um bænda er ekki ljóst af þess­um orðum hvort meiri­hluti ut­an­rík­is­nefnd­ar tel­ur að Ísland geti viðhaldið toll­vernd til handa inn­lend­um land­búnaðar­af­urðum ef gengið verður í sam­bandið, þó rætt sé um að slíkt verði eitt af samn­ings­mark­miðum Íslands.

„Ekk­ert land sem gengið hef­ur í Evr­ópu­sam­bandið hef­ur fengið und­anþágur frá frjálsu og óhindruðu flæði vöru milli landa, enda eru slík tolla­laus og óheft viðskipti ein af grunn­stöðum Evr­ópu­sam­bands­ins,“ seg­ir í um­fjöll­un Bænda­sam­tak­anna.

Þá seg­ir að Finn­ar hafi í aðild­ar­viðræðum sín­um við ESB reynt að ná fram und­anþágu sem leyfa myndu áfram­hald­andi toll­vernd, í það minnsta um stund­ar­sak­ir en ekki tek­ist.

„Bænda­sam­tök­in hafa í mál­flutn­ingi sín­um lagt áherslu á að toll­vernd­in sé land­búnaðinum í það minnsta jafn mik­il­væg og stuðning­ur rík­is­ins við bú­grein­arn­ar. Falli toll­vernd niður má því leiða lík­um að því að ís­lensk­ur land­búnaður hlyti þung högg sem valda myndu því að hann legðist af í þeirri mynd sem er í dag,“ seg­ir á bondi.is

Ekki fjallað um land­búnað í heild

Tals­menn bænda gagn­rýna og að ekki skuli fjallað um mik­il­vægi tengdra starfa en um tíu þúsund manns hafa beina at­vinnu af ís­lensk­um land­búnaði. Þá seg­ir að til­finn­an­lega skorti að fjallað sé um land­búnaðinn í heild í um­sögn­inni, en megin­áhersla er lögð á mjólk­ur­fram­leiðslu og sauðfjár­rækt. Ekki sé fjallað að neinu marki um aðstæður svína­bænda og kjúk­linga­bænda, en færð hafi verið rök fyr­ir því að þær grein­ar muni verða fyr­ir mest­um skakka­föll­um við inn­göngu.

Sjá nán­ar á bondi.is

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær