Hollenski stjórnmálamaðurinn, Corien Wortmann, sem situr á Evrópuþinginu fyrir kristilega demókrata, telur að Íslendingar eigi ekki erindi inn í Evrópusambandið fyrr en þeir hafi gengið frá skuldum Landsbankans. Þetta kemur fram á vef hollenska dagblaðsins Telegraph í dag. Á Wortmann að hafa látið þessa skoðun sína í ljós við forsætisráðherra Svíþjóðar, Fredrik Reinfeldt, en Svíar fara með formennsku í ESB út árið.
Segir í fréttinni að Íslendingar muni óska eftir aðildarviðræðum fljótlega en hennar flokkur, CDA, sé andsnúinn því að Ísland fái aðild nema gengið sé frá Icesave. Kemur einnig fram að aðrir flokkar á hollenska þinginu hafi svipaða fyrirvara á inngöngu Íslands í ESB.