Óvíst hvort greidd verði atkvæði í dag

Dagskrá Alþingis hefur riðlast nokkuð í dag og er hugsanlegt að horfið verði frá því að greiða atkvæði um ESB-tilögur í dag, eins og ráðgert er. Illugi Gunnarsson, formaður þingflokks sjálfstæðismanna, segir það líklega ráðast á næstu klukkustund.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd fundaði kl. 13.30 í dag og þar var skýrsla hagfræðistofnunar Háskóla Íslands kynnt að einhverju leyti. Hluti hennar er hins vegar enn bundinn trúnaði. Þingmenn utan nefndarinnar hafa ekki fengið að sjá skýrsluna. Taka ber fram að um er að ræða drög að skýrslu, sem unnin var fyrir utanríkisráðuneytið.

Óhætt er að segja að mikið fjaðrafok hafi verið á Alþingi í dag, ekki síst bakvið tjöldin. Helst olli það uppnámi þegar kom í ljós að drögin að skýrslunni voru bundin trúnaði. Áður hafði forseti Alþingis, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, eftir utanríkisráðherra að skýrslan yrði kynnt þingmönnum sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og ekkert væri því til fyrirstöðu að aðrir þingmenn fengu að skoða hana einnig.

Í hádeginu kom í ljós að trúnaður var á drögunum. Kom m.a. fram í bréfi frá utanríkisráðuneyti að  Bændasamtök Íslands hefðu farið fram á trúnað, ásamt sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og utanríkisráðuneyti. Formaður Bændasamtakanna þvertók hins vegar fyrir það. Hann hafi hins vegar kallað eftir því að fá skýrsluna í hendur í nokkurn tíma. Drögin hafi verið tilbúin í lok apríl.

Umræðan um ESB-tillögurnar fer nú fram og eru tíu þingmenn á mælendaskrá. Hugsanlegt er að dagskráin breytist komi flokkarnir sér saman um að ljúka málinu í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag