Átelur villandi framsetningu

Steinþór telur ályktanir um stöðu sauðfjárræktar á Íslandi við inngöngu …
Steinþór telur ályktanir um stöðu sauðfjárræktar á Íslandi við inngöngu í ESB ekki á rökum reistar. mbl.is/Golli

Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands, gagnrýnir nýbirta samanburðarskýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, Íslensk bú í finnsku umhverfi, harðlega. Hann vísar þeirri niðurstöðu að íslenskir sauðfjárbændur gætu jafnvel haft það betra innan ESB alfarið á bug. 

Athugasemd Steinþórs er svohljóðandi:

„Frá síðasta ári hefur starfað nefnd á vegum utanríkisráðuneytisins sem hefur það verkefni að meta áhrif hugsanlegrar aðildar Íslands að ESB á íslenskan landbúnað. Undirritaður situr í þessari nefnd.

Margs konar gagna hefur verið aflað um landbúnaðar- og styrkjakerfi ESB. Auk þess hefur verið sérstaklega horft til Finnlands til að meta stöðu finnsks landbúnaðar vegna hliðstæðna við innlendan landbúnað.

Á síðasta fundi nefndarinnar var lögð fram skýrsla Hagfræðistofnunnar Háskóla Íslands um mat á stöðu innlends landbúnaðar innan ESB. Skýrslan var skýrð og rædd ítarlega. Undirritaður gerði alvarlegar athugasemdir við framsetningu skýrslunnar og að ekki kæmu nægilega skýrt fram þær forsendur sem byggt væri á og gætu augljóslega valdið misskilningi og mistúlkun. Var ekki annað séð en aðrir fundarmenn væru sammála því að skýra þyrfti þessar forsendur betur.

Nefndin hefur ekki lokið störfum og því vekur það undrun að ráðuneytið skuli birta umrædda skýrslu án þess að skýra þau atriði sem bent var á er nefndin fjallaði um hana.

Nokkur atriði skipta miklu og þarf að skýra betur.

Í skýrslunni er gefin sú forsenda að engin verðlækkun verði á kindakjöti við ESB aðild ! Og þess vegna rýrni ekki hagur sauðfjárbænda heldur batni ! Hér kemur ekki fram að byggt er á þeirri forsendu að verð á kindakjöti innanlands verði fyrir ESB aðild komið niður í útflutningsverð þar sem útflutningsskylda er fallin niður og þar með muni markaðsöfl þrýsta verði niður í útflutningsverð. Ef það gerist þá verður engin sauðfjárrækt á Íslandi því íslenskir sauðfjárbændur þola ekki þá 30-45% verðlækkun sem það mundi orsaka m.v. „venjulegt“ gengi á íslensku krónunni.

Í skýrslunni kemur fram að innlendur landbúnaður sé kominn með kostnaðarforskot á samkeppnislönd m.ö.o. að við séum orðin láglaunasvæði og reiknað út frá gengisvísitölu 175. Það er hæpin forsenda til lengri tíma að íslenska krónan verði svo veik eða að hægt sé að gefa sér kostnaðarforskot á Íslandi m.v. nágrannalönd.

Þegar metin er staðan m.v. Finnland og styrkir skoðaðir þá sést í töflu að það ætti að vera hægt að semja um heimild til svipað stuðnings og landbúnaðurinn nýtur nú. En hér þarf að bæta við til skýringa að við fáum enga peninga frá ESB. Ísland mun alltaf greiða meira til ESB en við fáum til baka og það verður íslenska ríkið sem greiðir allan norðurslóðastuðning sem hægt verður að semja um.

Það er mikilvægt að umræða og mikilvægar ákvarðanir byggi á réttum upplýsingum.“

Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands.
Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands. mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Innlent — Fleiri fréttir

Í gær

Loka