Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar og þingmaður Vinstri grænna, sagði ekki kosið um aðild að Evrópusambandinu á Alþingi í dag. Atkvæðagreiðslan væri um málsmeðferð og að koma máli á dagskrá sem lengi hefur verið deilt um. Hann sagði það kost að í framkvæmdavaldinu séu andstæðir pólar í málefnum ESB.
„Efinn er ætíð góður förunautur í hverri vegferð,“ sagði Árni og bætti við að takast eigi á um kjarna málsins, aðalatriðin í málinu; hvort hagsmunum Íslands sé betur borgið innan eða utan Evrópusambandsins. Hann sagði lykilinn að málinu, að leggja þá spurningu fyrir þjóðina.
Árni sagði mikilvægt að öll gögn liggi fyrir um hvaða samning Ísland fær þannig að þjóðin geti tekið upplýsta ákvörðun. Það verði ekki gert nema með því að fara í viðræður.
Hann sagði ljóst að fyrir liggi ásetningur um náið samráð í viðræðunum og sagðist sjálfur ekki ætla að hlaupa frá þeim fyrirheitum, verði hann yfirleitt í aðstöðu til þess að hafa áhrif á málið. Hann sagði verkefnið ekki eins flokks, heldu allra og hagsmunaaðila einnig.