Engin áhrif á stöðu

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, telur ekki að hjáseta hennar í atkvæðagreiðslu um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu hafi áhrif á stöðu hennar sem varaformanns. „Ég sé ekki að það hafi nein áhrif, ekki nema menn ætlist ekki til þess að menn hafi sínar skoðarnir. Þetta hefur alltaf legið ljóst fyrir, ég talaði um þetta í prófkjörinu, fyrir landsfund, í kosningunum. Þessi afstaða mín hefur alltaf legið ljós fyrir,“ sagði hún í samtali við Morgunblaðið. „Ég sé ekki að það eigi að breytta nokkru um stöðu mína sem varaformaður. Þá kemur það bara í ljós á landsfundi.“ Mikilvægt væri að hafa í huga að ekki væri um að ræða atkvæðagreiðslu um aðild að ESB heldur aðildarviðræður. 

Þorgerður Katrín greindi formanni Sjálfstæðisflokksins frá því hvernig hún myndi greiða atkvæði áður en til atkvæðagreiðslunnar kom og það samtal var í góðri sátt, að hennar sögn. Þá gerði hún þingflokknum grein fyrir afstöðu sinni fyrr í vikunni og það gerði Ragnheiður Ríkharðsdóttir, sem studdi tillögu stjórnarinnar, einnig. Þorgerður Katrín sagði að á þessum fundi hefði enginn hreyft mótmælum og málið ekki verið rætt frekar. Aðspurð sagði Þorgerður Katrín að hún hefði aðallega fengið góð viðbrögð vegna afstöðu sinnar en skoðanir væru auðvitað skiptar.

Þorgerður Katrín sagði að menn yrðu að átta sig á að nýir tímar væru runnir upp. „Við erum að segja skilið við gömlu vinnubrögðin. Ég tel mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn sýni þá breidd sem hann hefur alltaf sýnt í gegnum tíðina, hvort sem það er á sviði utanríkismála, efnahagsmála eða í öðrum málaflokkum. Og ég held að hann hafi gert það í dag.“Fólk hefði m.a. kallað eftir því að þingmenn færu eftir samvisku sinni. „Nú eru menn að klappa mikið Ásmundi Einari Daðasyni á bakið. „Þetta gildir auðvitað á báða vegu. Að menn fari eftir samvisku sinni og sannfæringu,“ sagði hún.


Þorgerður Katrín hefur verið eindreginn stuðningsmaður þess að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort Íslands ætti að sækja um aðild. „Sú tillaga var felld, mér til mikillar undrunar og sérstaklega að Vinstri grænir hafi staðið gegn því,“ sagði hún. Undarlegt væri að þingmenn hefðu ekki skynjað ákall eftir því að þjóðin fengi að ráða meiru um stóru grundvallarmálin. Þar sem ríkisstjórnin væri klofin væri einboðið að menn leituðu til þjóðarinnar bæði í upphafi og loks málsins.

mbl.is

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær

Loka