Fagnar niðurstöðu Alþingis

Gylfi Arnbjörnsson er ánægður með ákvörðun um aðildarumsókn að ESB.
Gylfi Arnbjörnsson er ánægður með ákvörðun um aðildarumsókn að ESB. Rax / Ragnar Axelsson

„Mér finnst þetta mjög mikið fagnaðarefni," segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, um þá ákvörðun Alþingis að senda aðildarumsókn fyrir Íslands hönd inn til Evrópusambandsins.

„Það er engin launung á því að Alþýðusambandið hefur í vetur lagt mikla áherslu á að það beri að fara þessa leið að stjórnvöld sæki um aðild að Evrópusambandinu og sjái hvað þjóðinni stendur til boða í slíkum viðræðum."

Hann segir það sérstaklega brýnt varðandi þau málefni sem mesti ágreiningurinn hefur staðið um. „Það eru mál eins og sjávarútvegs-, landbúnaðar- og byggðarmál. Við höfum lagt þar fram tillögur um samningsmarkmið og erum því sammála því að skynsamlegt sé að fara í viðræðurnar og leggja niðurstöðu þeirra í mat þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu."

Gylfi segist ánægður með að breytingartillögur Sjálfstæðisflokksins, um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu annars vegar og um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu hins vegar, hafi verið felldar. „Ég var þeirrar skoðunar og ASÍ að það hefði átt að breyta stjórnarskránni í tíð minnihlutastjórnarinnar fyrir kosningarnar í vor þannig að það væru ákvæði í stjórnarskránni um að það væri hægt að fara í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Það var ekki gert m.a. vegna þess að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn brugðu fæti fyrir það. Mér finnst því dálítið skrýtin umræðan um að setja lög um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu þegar ekki eru ákvæði um slíkt í stjórnarskránni."

Hins vegar sé engin launung á að það hefði verið kostur í málinu hefði ríkisstjórnin verið samhentari í því. „Aðalatriðið núna er þó að það liggur fyrir skýrari stefnumörkun um þetta mál og þá liggur líka fyrir hvers lags peningamálastefnu ríkisstjórnin vill rækta. Langstærsta verkefni þessarar ríkisstjórnar er auðvitað í efnahagsmálum, þ.e. ríkisfjármálunum og hins vegar peningamálunum."

mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Rakel Sigurgeirsdóttir: ...

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær