Umsókn Íslendinga um aðild að Evrópusambandinu mun hafa ótvíræð áhrif í Noregi og gefa Hægriflokknum tilefni til að setja Evrópumálin aftur á oddinn, að mati norska blaðamannsins Ingrid Skjøtskift, sem sérhæfir sig í Evrópumálum.
Skjøtskift, sem skrifar um Evrópumál í norsku blöðin Adresseavisen, Bergens Tidende og Stavanger Aftenblad með aðsetur í Brussel, segir umræðuna um hvort Norðmenn eigi að ganga í sambandið hafa einkennst af svart/hvítri framsetningu og að aðildarumsókn Íslendinga muni ein og sér ekki breyta því í bráð.
Hitt sé ljóst að þegar aðildarsamningur Íslendinga liggur fyrir kunni það að breyta umræðunni í Noregi, sérstaklega með tilliti til sjávarútvegshliðar samningsins.
Hún segir pólitíkina fléttast inn í.
„Staða Hægriflokksins er ekki sterk um þessar mundir. Framfaraflokknum, sem er lýðskrumsflokkur, hefur gengið betur að höfða til kjósenda á hægri vængnum með skýrari framsetningu stefnumiða.
Nú þegar aðildarumsókn Íslendinga liggur fyrir hefur það gefið Hægriflokknum tilefni til að setja Evrópumálin á oddinn," segir Skjøtskift, sem telur aðildarsamninginn kunna að hafa áhrif.
Norðmenn stæðu einir eftir
„Ég tel að það sem framundan er kunni að breyta viðhorfi margra Norðmanna og draga athyglina að þeirri staðreynd að svo kann að fara að Noregur verði eina Norðurlandaþjóðin sem stendur utan sambandsins. Noregur yrði með aðild Íslands jafnframt eitt Norðurlandanna eftir í EES-samstarfinu, ásamt Andorra og Liechtenstein, ríkjum sem skipta Norðmenn sáralitlu máli.
Á hinn bóginn tel ég að umsókn Íslands muni ekki breyta miklu til skemmri tíma litið því að norska rökræðan um ESB er sem fyrr segir mjög svart/hvít. Annaðhvort ertu með eða á móti aðild. Það hefur ekki farið fram raunveruleg rökræða um kosti og galla aðildar árum saman.
Ég held hins vegar að umræðan fari að snúast meira um staðreyndir þegar fyrir liggur hvernig aðildarsamningur Íslendinga líti út. Sjávarútvegurinn er lykilatriðið. Hann var aðalástæðan fyrir því að Norðmenn höfnuðu aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu 1972 og hafði síðan aftur mikla þýðingu árið 1994 (þegar aðild var hafnað öðru sinni).
Þegar Norðmenn sjá hvernig samið verður um fiskinn og aðrar auðlindir við Ísland mun útkoman skipta máli í Noregi. Rökræðan sem framundan er mun að grunni til verða í sömu förunum og hingað til en með áherslu á breytta stöðu Noregs. Staða Noregs er sérstök. Nær öll ríki Evrópu vilja ganga í sambandið en Norðmenn ekki.
Útlit er fyrir að ESB-ríkin verði orðin 28 innan tveggja til þriggja ára (með Íslendinga innanborðs). Það verður mikil breyting fyrir Norðmenn þótt Ísland sé lítið ríki, enda er landið mikilvægt fyrir Noreg."
Miðflokkurinn andvígur aðild
Aðspurð um afstöðu einstakra flokka í Noregi til aðildar segir Skjøtskift Miðflokkinn, sem á rætur í bændahreyfingunni, og sósíalista í Sosialistisk Venstreparti, á móti aðild, líkt og smáflokkarnir Kristilegir demókratar, Kristelig Folkeparti, og miðjuflokkurinn Venstre.
Framfaraflokkurinn, Fremskrittspartiet, sé hins vegar klofinn í málinu og freistist til að halda báðum flokksbrotum sáttum. Sú afstaða kunni að breytast ef svo fer að meirihluti verður fyrir aðild í Noregi og leiðtogar flokksins fari í þá átt.
Með líku lagi sé norski jafnaðarmannaflokkurinn klofinn í afstöðunni til aðildar, klofningur sem Skjøtskift rekur allt aftur til ársins 1972, þegar Norðmenn felldu aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu, eftir að leiðtogar flokksins studdu inngöngu, þvert á grasrótina.
Að lokum sé Hægriflokkurinn sem fyrr segir hlynntur aðild.
Umsóknin hefur ekki áhrif
Hún segir ekki hafa staðið á viðbrögðum frá Miðflokknum þegar samþykkt alþingis Íslendinga lá fyrir.
„Miðflokkurinn, eitt sterkasta vígi andstöðunnar við aðild í Noregi, hefur gefið það frá sér að ákvörðun íslenska þingsins hafi engin áhrif í Noregi. En að sjálfsögðu breytir þetta miklu fyrir Noreg. Íslendingar hafa þegar komið af stað nýrri aðildarumræðu í Noregi.
Það er skarð fyrir skildi í Evrópusambandsumræðunni í Noregi að jafnaðarmenn taka ekki þátt í raunverulegri rökræðu. Þeir vilja ekki ræða samband okkar við Evrópusambandið. Á sama tíma vilja jafnaðarmennirnir Jens Stoltenberg forsætisráðherra og Jonas Gahr Støre utanríkisráðherra báðir ganga í sambandið.“
Staða jafnaðarmanna erfið
Skjøtskift segir jafnaðarmenn eiga erfitt um vik í umræðunni.
„Það er hins vegar útilokað fyrir jafnaðarmenn að bera upp aðildarspurninguna í núverandi stjórnarsamstarfi. Ég held að jafnaðarmenn muni ekki blanda sér í umræðuna af krafti nema að þeir séu þess fullvissir að breyting sé að verða á afstöðu þjóðarinnar til aðildar. Kannanir sýna að andstæðingar aðildarinnar eru fleiri.
Ég lít ekki svo á að umsóknin muni ríða baggamuninn núna. Þegar Norðmenn sjá hins vegar aðildarsamninginn og ef íslenska þjóðin samþykkir hann tel ég að það muni hafa áhrif í Noregi. Ég held að við munum feta í fótspor vina okkar.
Ef Danir og Svíar taka upp evruna verðum við enn einangraðri í Noregi. Sú þróun mun líka hafa áhrif á skoðanamyndun í Noregi. Þessi þróun mun ef til vill ekki fá Norðmenn til að greiða atkvæði með aðild. Hún mun á hinn bóginn slá á ótta margra Norðmanna við Evrópusambandið.
Ef umræðan verður áfram á sömu svart/hvítu nótunum eru allar líkur á að aðild verði felld. Ef hún fer hins vegar að snúast meira um staðreyndir og ef sambandið færist nær Noregi með aðild Íslands og evruupptöku Svía og Dana held ég að það mynda breyta viðhorfi Norðmanna."
Gengismálin skipta máli
Skjøtskift víkur því næst að þætti norsku krónunnar í Evrópuumræðunni. Eins og staðan sé njóti Norðmenn góðs af gengi krónunnar gagnvart sænsku krónunni. Þeir hafi jafnframt fundið á eigin skinni hvernig gengi evru hefur orðið sterkara gagnvart norsku krónunni.
Með hugsanlegri evruupptöku Svía og Dana muni Norðmenn verða enn meðvitaðri um stöðu eigin gjaldmiðils gagnvart evrunni.
Þá hafi sú röksemd að sambandið sé fyrir rík og valdamikil ríki fallið með stækkun þess í síðustu stækkunarlotum, svo sem með inngöngu fyrrum austantjaldslandanna Rúmeníu og Búlgaríu. Það hafi haft sín áhrif í Noregi þegar Svíar gengu í sambandið á síðasta áratug, þótt því gagnstæða hafi verið haldið fram í umræðum á sínum tíma.