Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði daginn í dag ekki sérstakan hátíðisdag, ekki fyrir þjóðina alla vega. Hann sagði ESB-málið ekki snúast um hagsmuni þjóðarinnar heldur Samfylkingarinnar. Benti hann einnig á að umræðan í evrópskum fjölmiðlum væri á þá leið að Íslendingar séu að sækja um aðild á hnjánum vegna allra þeirra vandræða sem þjóðin hefur lent í.Sigmundur Davíð sagði að nú væri búið að láta þau boð út ganga að í raun sé ekki verið að greiða atkvæði um aðildarumsókn heldur ríkisstjórnina. Hann benti þingmönnum Vinstri grænna á að staða þeirra yrði sterk ef þeir færu eftir sannfæringu sinni. Hugsanlega kæmi til fjögurra flokka þjóðstjórn ef málið verði fellt.
Hann sagði Samfylkinguna hafa reynt að keyra málið í gegn um þingið í júlimánuði til að minnstar líkur væru á því að þjóðin gæti tekið þátt í umræðu um málið. Hún hafi notað tækifærið á meðan fólk er í sumarfríi. Sigmundur sagði að það geti ekki orðið til annars en tjóns að leggja í viðræður með þessum hætti. Hann spurði í kjölfarið hvort ekki væri betra að reyna hugsa hlutina rökrétt í stað þess að knýja málið í gegn með sem minnstri umræðu.
Sigmundur sagði samningsstöðu Íslands ekki verða viðunandi fyrr en ríkiststjórnin sýni að hún geti tekið á vandamálum innanlands, s.s. efnahagsmálum. Ef rætt hefði verið af sama kappi og áhuga um þau mál í sumar væri þjóðin kannski með betri samningsstöðu um þessar mundir.