Kjúklingar myndu lækka um 70%

Skýrsluhöfundar halda því fram að staða íslenskra sauðfjárbænda myndi ekki …
Skýrsluhöfundar halda því fram að staða íslenskra sauðfjárbænda myndi ekki breytast mikið. mbl.is/RAX

Afkomurýrnun íslenskra svínabænda næmi, að teknu tilliti til norðurslóðastuðnings, um 15% við inngöngu Íslands í Evrópusambandið og þá stórauknu samkeppni við erlenda framleiðslu sem henni fylgdi. Sambærileg tala fyrir kjúklingabændur er um 30% en afkoma sauðfjárbænda yrði umtalsvert betri, að því gefnu að verð héldist nær óbreytt og útflutningur ykist.

Þetta kemur fram í samanburðarskýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, Íslensk bú í finnsku umhverfi, sem gerð var opinber í gær að kröfu alþingismanna.

Í skýrslunni, sem tekin var saman fyrir utanríkisráðuneytið, er ítrekað að ekki beri að líta á greininguna sem samningsniðurstöðu fyrir Ísland. Sú niðurstaða fáist aðeins með aðildarsamningnum sjálfum.

Útskýrt er hvernig sameinuð landbúnaðarstefna ESB (CAP) hafi færst frá framleiðslutengdum styrkjum til eingreiðslna, öndvert við íslenskan landbúnað sem búi að mestu við framleiðslutengda styrki.

Lækkun um tugi prósenta

Gert er ráð fyrir að kjúklingar myndu lækka um 70%, egg og mjólkurvörur um 55-60% og svínakjöt um 35% við inngöngu og afnám tolla. Verð á kinda- og nautakjöti til bænda breyttist hins vegar lítið.

Fram kemur að verð til finnskra bænda lækkaði að jafnaði um 40 til 50% eftir inngöngu landsins í sambandið í ársbyrjun 1995 og tekið dæmi af því hvernig hlutur innlends nautakjöts hafi lækkað í 94% 2005.

Þá hafi finnskum býlum fækkað úr 100.000 í 70.000 á tíu árum og laun landbúnaðarverkamanna lækkað í fyrstu en svo hækkað á ný. Fjármagnskostnaður býla er sagður að meðaltali 30% lægri í ESB.

Því gæti fjármagnskostnaður íslenskra býla lækkað verulega við inngöngu Íslands í sambandið.

Yrðu dýrari en innfluttar vörur

Reynsla Finna og íslenskra grænmetisbænda bendi til þess að verð á íslenskum búvörum gæti orðið 10 til 20% hærra en verð á innfluttum vörum. 

Almennt sé matvöruverð út úr búð að jafnaði 30% lægra í Evrópusambandinu en hér.

Þrátt fyrir það beri að hafa í huga að landbúnaðarverð í þeim löndum sem næst eru okkur landfræðilega sé í einhverjum tilfellum hærra.

Eins og áður segir lækkaði verð til finnskra bænda um 40-50% við inngönguna í ESB 1995 og segir í skýrslunni að á móti lækkun afurðaverðs komi að peningagreiðslur frá hinu opinbera til finnskra bænda hafi aukist um meira en helming. Alls greiði finnska ríkið liðlega helming af styrkjunum en ESB það sem eftir stendur.

Stuðningur á landbúnað hafi þvi færst frá verðstuðningi yfir í beinar greiðslur.

Dreifbýlt og harðbýlt svæði

Eins og við var að búast er dregin sú ályktun að Ísland yrði skilgreint sem dreifbýlt og harðbýlt svæði við aðlögun íslensks landbúnaðar að landbúnaðarstefnu ESB.

Allt bendi til að sá stuðningur sem í boði sé innan ESB sé umtalsvert lægri en sá stuðningur sem íslenskir bændur njóti í dag.

Á hinn bóginn myndi norðurslóðastuðningur af svipuðum toga og finnskir bændur njóta draga verulega úr tekjumuninum og gera suma bændur jafn vel eða betur setta en þeir eru í dag.

Vísar þetta m.a. til sauðfjárbænda sem eins og áður segir eru taldir munu koma vel út úr inngöngu landsins í ESB.

Vikið er að því að neytendatryggð kynni að koma íslenskum …
Vikið er að því að neytendatryggð kynni að koma íslenskum mjólkuriðnaði til góða, líkt og í Finnlandi. mbl.is/Helgi Bjarnason
Einnig er vikið að sérstöðu íslensks búfjár.
Einnig er vikið að sérstöðu íslensks búfjár. mbl.is/RAX
mbl.is

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær

Föstudaginn 17. janúar

Loka