Skref í átt að auknu trausti

Vilhjálmur Egilsson
Vilhjálmur Egilsson

„Ég held, eins og mér hefur virst menn tala úti í heimi, að þetta muni auki traust á Íslandi,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins um þá niðurstöðu Alþingis að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu.

Aðspurður hvort hann telji að ákvörðunin muni strax hafa áhrif á viðskiptalífið á Íslandi gagnvart umheiminum segist Vilhjálmur telja að fleira þurfi til. „Þetta eitt og sér er ekki úrslitaatriði þótt margir telji að við séum að fara í rétt átt með þessu. Það eru svo margir þættir sem þurfa að koma til til þess að aðrir fái traust á okkur aftur, þetta er einn af mörgum en með þessu erum við auðvitað að leggja af stað upp í vegferð sem við vitum ekki nákvæmlega hver niðurstaðan verður af.“

Verkefnið núna segir Vilhjálmur vera að róa að því öllum árum að gera eins hagstæðan aðildarsamning og mögulegt er. „Það eru hagsmunir allra að ná slíkum samningi óháð því hvort menn eru með eða á móti og hvort sem þetta verður samþykkt eða ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég vona að sú vinna sem fram undan er verði árangursrík að því leyti.“

Í þeim efnum séu mikilvægustu atriðin að tryggja stöðu sjávarútvegsins og landbúnaðarins og að aðild bitni ekki á landsbyggðinni. „Það eru hættupunktarnir í málinu og mér hefur sýnst að aðildarsamningur muni aldrei setja sjávarútveginn í betri stöðu heldur frekar verri stöðu en í dag. Þannig að það er spurning hvort það skref aftur á bak sem þarf að stíga í þeim málum verði lítið eða stórt og sama gildir um landbúnaðinn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær