Umræður á Alþingi um aðild Íslendinga að Evrópusambandinu vekja athygli um víða veröld. Ýtarlega grein um málið er að finna í Wall Street Journal í dag þar sem vitnað er í Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, þar sem hún segist telja að kosningin verði jöfn. Þá hafa fréttastofurnar AP og AFP sýnt umræðunum á Alþingi athygli.
Í grein Wall Street Journal segir að „maraþon-umræðurnar“ á Alþingi sýni hversu umdeilt sé á Íslandi hvaða leið sé best að fara til að reisa landið við eftir efnahagshrunið í haust.
Í greininni segir ennfremur að verði ákveðið að sækja um aðild muni ferlið eflaust taka um tvö ár og Íslendingar þurfi að uppfylla ýmis skilyrði. Hins vegar hafi landið ákveðið forskot fram yfir mörg önnur lönd enda sé Ísland hluti af EES-samningnum og hafi því innleitt Evrópusambandslöggjöf hér á landi.
Greinina í Wall Street Journal má nálgast hér.