Yfirlýsing forsætisráðherra um ESB

Jóhanna Sigurðardóttir er hún flutti stefnuræðu sína.
Jóhanna Sigurðardóttir er hún flutti stefnuræðu sína. mbl.is/Ómar

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna samþykktar Alþingis um að gengið skuli til viðræðna við ESB.

Yfirlýsing hennar fer í heild hér á eftir:

„Alþingi hefur tekið ákvörðun um að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu.

Þetta er söguleg ákvörðun og atkvæðagreiðslan í dag er líklega ein sú ánægjulegasta sem ég hef tekið þátt í vegna þess að ég er sannfærð um að hún hefur mikla þýðingu fyrir Ísland.

Við munum nú leggja inn formlega umsókn hjá formennskuríkinu í ráðherraráði ESB á næstu dögum og hefja skipulegan undirbúning að aðildarviðræðum.

Allt kapp verður lagt á að allir stjórnmálaflokkar og hagsmunaaðilar á Íslandi eigi hlutdeild í viðræðuferlinu og almenningur fái sem bestar upplýsingar um kosti og galla aðildar til þess að geta tekið afstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu um væntanlegan aðildarsamning.

Ísland og ríkin 27 í Evrópusambandinu, sem gengið verður til samninga við, deila sameiginlegri lýðræðis- og menningarhefð, og Ísland hefur um árabil verið virkur þátttakandi í Evrópusamstarfi í víðasta skilningi.

Sem norrænt velferðarríki og aðili að EES og Schengen er Ísland vel í stakk búið til þess að ræða skilyrði og forsendur fyrir fullri aðild að Evrópusambandinu við aðildarríkin og stofnanir ESB."

mbl.is

Innlent — Fleiri fréttir

Í gær

Mánudaginn 20. janúar