„VG er stór flokkur, ekkert sýnishorn af flokki lengur. Það er þess vegna alveg eðlilegt að það séu skiptar skoðanir á meðal okkar,“ segir Lárus Ástmar Hannesson, formaður kjördæmisráðs Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðvesturkjördæmi.
Hann segir að sér þyki stórmannlegt af fólki að sýna þann karakter að fara í gegnum ESB-málið, fólk þurfi að leyfa hvað öðru að hafa sínar skoðanir á þverpólitísku máli eins og þessu. Margir flokksmenn séu samt harðir andstæðingar aðildar, ekki síst bændur. Svipaður hljómur er í flestum vinstri grænum flokksmönnum, sem rætt hefur verið við.
Þar að auki skipti miklu máli að umsóknin kom ekki eins og þjófur að nóttu, fyrst var opnað á hana í ályktun síðasta landsfundar, og því næst samið um hana í stjórnarsáttmálanum síðastliðið vor. Menn vissu að þetta var í farvatninu.
Þar að auki bendir Lárus á að könnun sem gerð var í vor sýndi að um það bil helmingur flokksbundinna vinstrigræningja vildi kanna hvað væri í boði hjá Evrópusambandinu.
„Þetta var erfitt, en ég held að menn hafi litið svo á að það skipti kannski meira máli að þessi stjórn héldi áfram. Það er grundvallaratriði,“ segir Hlynur Hallsson á Akureyri, formaður kjördæmisráðs í norðaustri. Í sama streng tekur Sjöfn Ingólfsdóttir, formaður svæðisfélagsins í Reykjavík. Grundvöllur ríkisstjórnarinnar sé norræn velferðarstjórn, en ekki stjórn mynduð um Icesave-málið eða aðildarumsókn í ESB. „Þessi böggull fylgdi þessu skammrifi,“ segir Sjöfn.
Öllum ber þó saman um að mjög margir séu mjög óánægðir, jafnvel að flestir flokksmenn séu mjög óánægðir. „Ég hefði nú viljað sjá Steingrím J. Sigfússon fara upp og gera grein fyrir atkvæði sínu. Það hefði nú ekki drepið hann,“ sagði einn viðmælandi á Austfjörðum. „Margar vinstrigrænar þingkonur fluttu þarna ágætar ræður, en atkvæðin þóttu mér verri,“ segir annar á Suðurlandi. Hann kveðst ekki fullviss um að allir þingmenn hafi kosið eftir sannfæringu sinni, jafnvel þótt þingflokkurinn hafi verið klofinn í málinu, enda hafi ræður sumra þingmanna sem sögðu já bent sterklega til þess að þeir vildu segja nei.
Steinunn Rögnvaldsdóttir, formaður Ungra vinstri grænna, segir þetta hitamál sem skipti fólki algerlega í tvær fylkingar. Andstaðan sé þó öllu meiri meðal ungliða í hinum dreifðari byggðum. Sumir séu Steingrími J. Sigfússyni afskaplega reiðir fyrir að hleypa málinu í gegn en aðrir hafi samúð með því að annað hafi ekki verið í stöðunni.
Aðeins hafi því verið tímaspursmál hvenær Alþingi ákvæði að sækja um aðild að ESB. Það lýðræðisferli þurfi að komast í farveg svo hægt sé að vinna að öðrum málum sem skipti meira máli. Vinstri grænir hafi fram að þessu talað fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum í veigamiklum málum og séu ekki flokkur sem leggst gegn því að þjóðin felli dóm í stórum málum.
„Ég tel mig hafa átt þátt í því að býsna margir í mínu umhverfi kusu VG núna í vor, út af skeleggri afstöðu í Evrópumálum, sem var ekki hægt að skilja öðruvísi en svo að menn væru á móti aðild. Menn geta ekki bæði verið með og á móti.“
Stefán segist hafa búist við að flokkurinn myndi stöðva þetta mál. Hann sé þó enn vinstrimaður og umhverfisverndarsinni, en niðurstaðan sé ekkert annað en framsóknarmennska; að segja eitt en gera annað.