Skuldatryggingarálagið á réttri leið

mbl.is

Kostnaður við að tryggja skuldabréf ríkissjóðs í evrum til 5 ára hefur lækkað um nærri 0,8 prósentur frá lokun markaða á miðvikudag. Minnkandi áhættufælni á mörkuðum á þar væntanlega nokkurn hluta að máli, en þó virðast fréttir af ESB-umsókn Íslands og nú síðast af væntu eignarhaldi bankanna einnig leika þar hlutverk, að því er segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

Þegar þetta er ritað stendur 5 ára skuldatryggingaálag á ríkissjóð í 583 punktum, sem samsvarar því að reiða þurfi fram rétt rúm 5,8% af nafnverði skuldabréfs til að tryggja eiganda þess gegn greiðslufalli næstu 5 árin. Álagið var hins vegar 660 punktar síðastliðinn miðvikudag.

„Lækkun skuldatryggingaálags á ríkisjóðs er raunar langt í frá einsdæmi, enda hefur áhættufælni farið minnkandi á mörkuðum undanfarna daga. ITRAXX Europe-vísitalan, sem vegur saman skuldatryggingaálag margra helstu fyrirtækja í Evrópu, hefur þannig lækkað um 8 punkta frá miðvikudegi síðustu viku, og ITRAXX Crossover-vísitalan, þar sem álag á áhættusamari fyrirtæki er vegið saman, hefur lækkað um 36 punkta á sama tímabili.

Hlutfallslega er lækkun íslenska álagsins þó talsvert meiri en fyrrnefndra vísitalna. Erlendir fjölmiðlar hafa að jafnaði tekið tíðindum undanfarinna daga af Íslandi með jákvæðum hætti, sér í lagi þó fréttum af endurskipulagningu bankanna," samkvæmt Morgunkorni.

Enn það hæsta meðal Evrópuríkja

Enn er skuldatryggingaálag á ríkissjóð Íslands þó það hæsta meðal þróaðra ríkja í Evrópu, en Írland kemur þar næst á eftir með 171 punkts álag. Af nýmarkaðsríkjum í Evrópu er Úkraína með langhæsta álagið, 1.582 punkta, og þar á eftir kemur Lettland með 690 punkta álag. Litháen og Kasakstan sigla svo í kjölfar Íslands með 450 punkta álag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær