„Loftfimleikar til heimabrúks“

Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon mbl.is/Ómar

„Mér finnst þetta algjörlega fráleitt. Það er mikill ábyrgðarhluti af ráðherra í ríkisstjórn í mjög viðkvæmu máli að fara út í svona loftfimleikaæfingar til heimabrúks. Þetta er augljóslega eingöngu ætlað til heimabrúks í Hollandi og til þess að lyfta honum á einhvern stall,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, um ummæli Maxime Verhagen, utanríkisráðherra Hollands, þess efnis að samþykki Alþingi ekki Icesave-samninginn þá geti það seinkað inngöngu Íslands í Evrópusambandið.

Steingrímur gerir alvarlega athugasemdir við ummæli Verhagens. „Í fyrsta lagi er þetta rangt sem maðurinn segir. Í öðru lagi er mjög óviðeigandi að koma inn með þessa tengingu og það gerir ekkert nema ógagn. Þannig að mér finnst þetta algjörlega forkastanleg framganga af hans hálfu.“

Spurður hvort ekki megi óttast að ummæli Verhagens endurspegli í reynd afstöðu hollenskra stjórnvalda vísar Steingrímur því á bug. „Ég sé nú seint fyrir mér ríkisstjórn standa berskjaldaða með afstöðu af þessu tagi,“ segir Steingrímur og tekur fram að eftir samtöl við fulltrúa breskra stjórnvalda í dag megi ljóst vera að bresk stjórnvöld séu mjög hissa á ummælum Verhagens. „Bresk stjórnvöld taka skýrt fram fyrir sitt leyti að þau blandi þessum málum [ESB-umsókn Íslands og Icesave-samningnum] ekki saman.“

Spurður hvort íslensk stjórnvöld hyggist bregðast formlega við ummælum hollenska utanríkisráðherrans segist Steingrímur hafa rætt málið við Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, þar sem það sé í hans höndum að bregðast formlega við. „Við ræddum saman fyrr í dag áður en Össur fór til Stokkhólms og við vorum báðir algjörlega sammála um það að þetta væri fráleit framkoma og við myndum mótmæla þessu.“


mbl.is

Bloggað um fréttina

Innlent — Fleiri fréttir

Í gær

Mánudaginn 20. janúar