Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra heldur í dag til Stokkhólms þar sem hann mun eiga fund með Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar á morgun, fimmtudag.
Svíþjóð fer nú með formennsku í ráðherraráði Evrópusambandsins og mun Össur fylgja aðildarumsókn Íslands að ESB úr hlaði á fundinum. Þá munu þeir Bildt ræða umsóknarferlið og næstu skref.
Carl Bildt sagði í gær í samtali við Bloomberg fréttaveituna að aðildarferli Íslands að Evrópusambandinu sé vel á veg komið vegna aðildar Íslands að evrópska efnahagssvæðinu.
Bildt sagði er hann kom fyrir nefnd þingmanna Evrópuþingsins í gær að Íslendingar hafi þegar gengið í gegnum stóran hluta þess aðlögunarferlis sem nauðsynlegt sé til aðildar.
„Það eru mikilvæg mál sem enn á eftir að leiða til lykta en stór hluti ferlisins hefur þó farið fram,” sagði Bildt.