Utanríkisráðherrar aðildarríkja ESB, sem hittust á fundi í Brussel í morgun, hafa samþykkt að vísa umsókn Íslands til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Þetta kemur fram í erlendum fjölmiðlum, m.a. á fréttavef Bloomberg.
Kl. 13 að íslenskum tíma hefst blaðamannafundur þar sem formlega verður greint frá niðurstöðu utanríkisráðherranna.
Mikil undirbúningsvinna mun nú væntanlega hefjast. Stækkunarskrifstofa
ESB, undir forystu Ollis Rehn, setur saman litla deild til að taka
saman skýrslu um hversu vel Ísland er í stakk búið til aðildar, hvort
við fullnægjum þeim skilyrðum sem nýjum aðildarríkjum eru sett og hvaða
vandamál geta komið upp í viðræðum. Fullbúin skýrsla verður svo lögð
fyrir leiðtogafund sambandsins, þar sem einnig verður óskað eftir
umboði til samningsviðræðna. Íslensk stjórnvöld vonast til að þetta
hafist fyrir leiðtogafundinn í desember, í lok formennskumisseris Svía.
Fram hefur komið að Ísland muni ekki geta stytt sér leið í
aðildarviðræðum við Evrópusambandið, að sögn Svía sem nú eru í forsæti
í sambandinu. Þetta sagði Carl Bildt utanríkisráðherra Svíþjóðar fyrir
fund utanríkisráðherra ESB í Brussel í morgun. Hann sagði ljóst að
leiðin væri styttri fyrir Ísland en ýmsa aðra.
„Það er engin hraðbraut fyrir Ísland, en augljóslega er brautin styttri fyrir Ísland því þeir eru hluti af innri markaðnum og Schengen svæðinu,“ sagði Bildt. Hann sagði að tekið yrði eitt skref í einu.