Ísland fær enga sérmeðferð

Olli Rehn
Olli Rehn FRANCOIS LENOIR

Olli Rehn, stækk­un­ar­stjóri Evr­ópu­sam­bands­ins, seg­ir að Ísland fái enga flýtimeðferð inn í sam­bandið en ekki megi gleyma því að Ísland hafi þegar tekið upp stærst­an hluta reglna ESB. Hann fagnaði á sama tíma um­sókn Íslend­inga. Þetta kom fram á blaðamanna­fundi í Brus­sel í dag en ut­an­rík­is­ráðherr­ar ríkja ESB funda nú þar í borg.

Rehn hrósaði Sví­um, sem fara með for­sæti í ESB, fyr­ir að hafa af­greitt um­sókn Íslands með skil­virk­um hætti. Hann sagði að sem gam­all Norður­landasinni teldi hann nor­rænu lýðræðis­rík­in öll eiga heima í Evr­ópu­sam­band­inu. 

Rehn og Cecilia Malmström, ráðherra Evr­ópu­mála í Svíþjóð, tóku fram á blaðamanna­fund­in­um að ríki á Balk­anskag­an­um sem hafa sótt um aðild að ESB verði ekki sett aft­ur fyr­ir Ísland en það sem skýri taf­ir á af­greiðslu um­sókn­ar Alban­íu sé stjórn­mála­ástandið í land­inu og að um­sókn þeirra verði af­greidd um leið og búið er að mynda þar rík­is­stjórn.

Fram kom í máli Malmström að ein­hver af aðild­ar­ríkj­um ESB hefðu látið í ljósi áhyggj­ur af að Alban­ía og önn­ur ríki á vest­an­verðum Balk­anskag­an­um yrðu lát­in mæta af­gangi. Rehn, Malmström og Carl Bildt, ut­an­rík­is­ráðherra Svíþjóðar, ít­rekuðu hins veg­ar að unnið yrði áfram með Balk­an­ríkj­un­um að því að búa þau und­ir ESB-aðild.

Spurt var á blaðamanna­fund­in­um hvort Sví­ar vonuðust til að álit fram­kvæmda­stjórn­ar­inn­ar lægi fyr­ir í for­setatíð þeirra, þ.e. fyr­ir ára­mót. Enn­frem­ur var Olli Rehn spurður hversu lang­an tíma það tæki fyr­ir fram­kvæmda­stjórn­ina að út­búa álits­gerðina.

Carl Bildt vísaði spurn­ing­unni til Olli Rehn. Hann sagði að aðal­atriðið væri að álit fram­kvæmda­stjórn­ar­inn­ar yrði „gæðavara". Nú þegar ráðherr­aráðið hefði beðið um álit fram­kvæmda­stjórn­ar­inn­ar á um­sókn Íslands yrði byrjað fljótt að vinna í mál­inu. „Það verður hlut­læg vinna og byggð á staðreynd­um. Hún mun taka þann tíma, sem nauðsyn­legt er að gefa verk­inu," sagði Rehn.

Rehn var spurður út í það hvernig það horfði fyr­ir um­sókn Íslands hve naum­ur meiri­hluti hafi verið fyr­ir því að sækja um aðild að ESB á Alþingi.  Að sögn Rehn er naum­ur meiri­hluti á þingi fyr­ir um­sókn að ESB ekk­ert nýtt, það sama hafi gerst á finnska þing­inu á sín­um tíma, málið hafi verið viðkvæmt og um­deilt. Finn­land hafi engu að síður lokið aðild­ar­samn­ing­um við ESB, sem sýni að hægt sé að finna lausn­ir á viðkvæm­um mál­um.

Að sögn Rehn full­næg­ir Ísland nú þegar öll­um lýðræðis­leg­um skil­grein­ing­um ESB. Landið er einnig aðili að Evr­ópska efna­hags­svæðinu og að minnsta kosti tveir þriðju af lög­gjöf ESB séu því þegar í gildi á Íslandi. Hins veg­ar sé ekki endi­lega hægt að draga þá álykt­un af því um mik­il­vægi þeirr­ar lög­gjaf­ar, sem Ísland hafi þegar tekið upp. Bú­ast megi við að aðild að mynt­banda­lagi Evr­ópu ásamt sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðar­mál­um eigi eft­ir að skipta miklu í aðild­ar­viðræðum.

Carl Bildt bætti því við að það hefði tekið Svíþjóð, Finn­land og Nor­eg skemmri tíma að semja um aðild að ESB en um aðild að EES-samn­ingn­um. Á það bæri hins veg­ar að líta að hvorki Finn­land né Svíþjóð ættu mik­illa hags­muna að gæta í sjáv­ar­út­vegi.

mbl.is

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Loka