Vilja ekki að Ísland fái forgang

Reuters

Þrátt fyrir að utanríkisráðherrar ríkja Evrópusambandsins telji að umsóknarferli Íslands verði styttra en margra annarra ríkja þá voru einhverjir utanríkisráðherrar fljótir til að sannfæra ríki á Balkanskaganum, sem hafa þegar sótt um aðild að ESB, um að umsókn Íslands muni ekki valda því að þeirra umsóknir fari aftar í röðina. Hins vegar njóti Ísland góðs af samningnum um evrópska efnahagssvæðið sem þýðir að Ísland hefur uppfyllt mörg þeirra skilyrða sem sett eru fyrir aðild að ESB.

Óvissa með hve langan tíma matið tekur

Líkt og fram hefur komið í dag þá vísuðu utanríkisráðherrar ESB umsókn Íslands áfram á fundi sínum í morgun.

Það þýðir að framkvæmdastjórn ESB mun kynna sér íslensk lög og stofnanir, ferli sem getur tekið marga mánuði, að því er segir í frétt Reuters. Ef niðurstaða framkvæmdastjórnarinnar er jákvæð hefjast formlegar viðræður í kjölfarið.

Samkvæmt upplýsingum Reuters frá framkvæmdastjórninni liggur ekki ljóst fyrir hversu langan tíma matið tekur en það hefur minnst tekið  fjórtán mánuði hingað til. Hins vegar vonast finnski utanríkisráðherrann, Alexander Stubb, eftir því að matið liggi fyrir í árslok.

Bernard Kouchner, utanríkisráðherra Frakklands, segir að taka verði tillit til þeirra ríkja sem sóttu um á undan Íslandi. Enginn hafi sett sig upp á móti umsókn Íslands en hann telji að virða beri röð umsækjenda.

Vill afgreiða Ísland og Króatíu saman

Bæði Carl Bildt og Michael Spindelegger, utanríkisráðherrar Svíþjóðar og Austurríkis, tóku fram að ekki mætti gleyma umsækjendum af Balkanskaganum, ríkjum eins og Serbíu og Albaníu, á meðan lagt væri mat á umsókn Íslands. Ef umsókn Íslands yrði afgreidd með hraði þá gæti það valdið óróa meðal umsækjenda á Balkanskaganum án þess þó að Ísland blandist þar inn.

Spindelegger segir að ESB eigi ekki að hleypa Íslandi fram fyrir aðra umsækjendur og að afgreiða eigi umsóknir Íslands og Króatíu samhliða. Hann segir að Austurríki vilji að Albanía myndi nánari tengsl við ESB en Albanía sótti um aðild í apríl. Umsóknin hefur hins vegar ekki fengið framgang vegna stjórnmálaástandsins í landinu.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær

Loka