Frjálslyndir hægrimenn í Hollandi (VVD) gagnrýna harðlega þá ákvörðun utanríkisráðherra Evrópusambandsríkjanna að hleypa umsókn Íslands um aðild að sambandinu áfram í gær. Telja þeir að ráðherrarnir hefðu átt að setja sem skilyrði að Ísland standi við Icesave-samkomulagið.
Jafnframt er utanríkisráðherra Hollands, Maxime Verhagen, gagnrýndur fyrir að hafa ekki tekið sjálfur þátt í atkvæðagreiðslunni heldur sent staðgengil sinn. Greint er frá þessu á vef hollenska dagblaðsins NRC Handelsblad.
Í frétt blaðsins er fjallað um viðvörun Verhagen um að Hollendingar myndu koma í veg fyrir aðildarumsókn Íslands nema Ísland geri upp Icesave-skuldir við hollenska sparifjáreigendur í samtali ráðherrans við Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra í síðustu viku.
Þingmaður VVD, Han ten Broeke, segir í samtali við blaðið að með því að veita umsókn Íslands brautargengi í gær sé ekki lengur hægt að stöðva umsóknarferli Íslendinga.
Bæði þingmenn kristilegra demókrata og Verkamannaflokksins hafa sagt að ekki komi til greina að Ísland fái aðild að ESB nema staðið sé við Icesave-samkomulagið.
Þingmaður Verkamannaflokksins, Luuk Blom, segist hins vegar ekki mótmæla því að umsókn Íslands hafi fengið framgangþ Því að lokum séu það þjóðþing aðildarríkja ESB sem ákveði hvort Ísland fái inngöngu í Evrópusambandið.