„Algjör þáttaskil urðu í bankastarfsemi með hruninu í byrjun október 2008. Fráleitt er að láta eins og það, sem gerðist í aðdraganda hrunsins, eigi að lúta lögmálum eðlilegra bankaviðskipta. Ætli okkur verði ekki sagt, að hagsmunir „viðskiptalífsins“ séu í húfi? Ekki kæmi á óvart, að Viðskiptaráð Íslands ályktaði til stuðnings lögbanni á fréttir frá Kaupþingi, skrifar Björn Bjarnason, fyrrum ráðherra á vef sinn í kvöld.
Fráleitt að bankaleynd eigi að ráða umræðum
Hann segir að nú sannist enn, hve fráleitt er, að telja bankaleynd eiga að ráða umræðum um aðdraganda hruns íslensku bankanna. „Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra Samfylkingarinnar, dró lappirnar andspænis gagnrýni á bankaleynd um atburði, sem eru hluti af sögu bankahrunsins. Hann flutti ekki frumvarp um breytingu á lögum til að aflétta leyndinni. Gylfi Magnússon, arftaki Björgvins G., stendur einnig vörð um þessa sagnfræðilegu bankaleynd. Í krafti hennar krefst Kaupþing þess, að lánabók þess fyrir hrun sé lokuð og fjölmiðlar fái ekki að segja fréttir úr henni."
Joly tekur ómakið af fjölmiðlafulltrúum
Björn fjallar einnig um grein Evu Joly í Morgunblaðinu á vef sínum í dag. Segir hann að hún hafi tekið ómakið af fjölmiðlafulltrúum forsætisráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins í að verja hag Íslands út á við.
„Ef rétt er munað höfðu þau Kristján Kristjánsson, fjölmiðlafulltrúi forsætisráðuneytis, og Urður Gunnarsdóttir, fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytis, á orði, að þeirra höfuðverkefni væri nú að sjá til þess, að málstaður Íslands hlyti kynningu í erlendum fjölmiðlum. Eva Joly hefur svo sannarlega tekið af þeim ómakið. Umbjóðendur þeirra Kristjáns og Urðar, Jóhanna og Össur, hefðu auk þess aldrei viljað leggja nafn sitt við grein, sem skammar forseta framkvæmdastjórnar ESB eða Gordon Brown, forsætisráðherra Breta. Hvorugt samræmist þjónkun þeirra við ESB.
Ríkisstjórn með samfylkingarfólk í embætti forsætisráðherra og
utanríkisráðherra getur ekki staðið vörð um málstað Íslands út á við.
Samfylkingin er svo ofurseld þránni um aðild að ESB, að hún er ófær um
gæslu íslenskra hagsmuna," skrifar Björn ennfremur.