Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar og þingmaður Vinstri grænna, telur að óbreytt frumvarp um ríkisábyrgð vegna Icesave-samninganna yrði fellt á Alþingi með 33 gegn 31. Í samtali við Reuters-fréttastofuna segist hann ekki viss um að nágrannaþjóðir Íslands geri sér grein fyrir þeirri byrði sem samningarnir þýða fyrir komandi kynslóðir.
Reuters-fréttastofan gerir málinu ágætlega skil í fréttaskýringu sinni. Meðal annars kemur fram að Íslendingum finnist ekki aðeins þjarmað að sér af Bretum og Hollendingum en einnig Evrópusambandinu í heild sinni. Það muni hafa áhrif á aðildarviðræður við sambandið hvernig Icesave-málinu lyktar.
Það sé lóð á vogarskálar andstæðinga ESB-aðildar og komi þeim að góðum notum í þeirri baráttu sem framundan er, þ.e. að sannfæra þjóðina um að fella aðildarsamninginn - ef komið verður til baka með samning - sem lagður verður fyrir þjóðina.
Þá er greint frá því, að þó svo andstaðan við Icesave sé mikil á Íslandi komi engar aðrar leiðir til greina enda muni það hafa í för með sér ný vandamál að hafna frumvarpinu. Eru í því sambandi nefndar lánveitingar til landsins og seinkun endurskoðunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.