Ekki hagkvæmt gjaldmiðilssvæði

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Golli

Vafasamt er að Ísland geti talist hagkvæmt gjaldmiðilssvæði, að því er segir í nýbirtri samantekt sem Seðlabanki Íslands vann fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra.

„Að framfylgja sjálfstæðri peningastefnu á grundvelli verðbólgumarkmiðs í jafn smáu hagkerfi og hinu íslenska mun að líkindum ávallt verða erfiðara viðfangs en á stærri gjaldmiðlasvæðum. Vafasamt er að landið geti talist hagkvæmt gjaldmiðilssvæði.

Í ljósi þess að niðurstaða aðildarumsóknar að Evrópusambandinu eða þjóðaratkvæðagreiðslu um hana gæti eigi að síður orðið á þann veg að landið standi áfram utan Evrópusambandsins og þar með myntbandalagsins um langa hríð og með hliðsjón af því að langan tíma kann að taka að þróa annað gjaldmiðilskerfi, er mikilvægt að huga einnig að endurbótum á núverandi kerfi.

Ekki virðist fýsilegt að hverfa aftur til fyrirkomulags einhliða fasts gengis í ljósi þess að stefnt er að því að afnema höft á fjármagnshreyfingar, enda annað óhugsandi í ljósi EES-samningsins.

Meðan ekki hefur verið breytt yfir í annað gjaldmiðilsfyrirkomulag væri ráðlegast að efla viðbúnað Seðlabankans til þess að takmarka vöxt fjármálakerfisins og bæta framkvæmd stefnunnar í opinberum fjármálum þannig að hún styðji betur við peningastefnuna og dragi þannig úr líkum á innstreymi óstöðugs fjármagns og efnahagslegum óstöðugleika," að því er segir í skýrslu Seðlabanka Íslands um kosti þess og galla að breyta umgjörð peningastefnunnar.

Tekið er fram í skýrslunni að ekki beri að líta á skýrsluna sem endanlega afstöðu Seðlabanka Íslands, heldur tilraun til þess að kortleggja helstu vandamál og hugsanlegar úrbætur eða breytingar á framkvæmd peningastefnunnar sem til greina gætu komið. Nánar verður fjallað um þessa reynslu í skýrslu sem Seðlabankinn áformar að birta fyrir lok vetrar 2009–2010.

Skýrslan í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Viðskipti — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær

Miðvikudaginn 8. janúar

Þriðjudaginn 7. janúar

Mánudaginn 6. janúar

Sunnudaginn 5. janúar