Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra átti tvíhliða fundi með þátttakendum í utanríkisráðherra fundi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja og fór þar yfir Icesave málið. Á fundinum fór Carl Bildt yfir áhersluatriði Svía sem forysturíkis í Evrópusambandinu. Einnig fjallaði hann um umsókn Íslands að ESB.
Blaðamannafundur Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra Íslands, Carls Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, Urmas Paet, utanríkisráðherra Eistlands og Maris Riekstins, utanríkisráðherra Lettlands hófst í Eldborg við Bláa Lónið kl. 11.00 í morgun.
Umas Paet, utanríkisráðherra Eistlands, rifjaði upp að á morgun verða 18 ár liðin frá því að Ísland varð fyrst ríkja til að viðurkenna endurheimt sjálfstæði Eistlands.
Blaðamannafundurinn var haldinn í tengslum við reglubundinn utanríkisráðherrafund sem var haldinn hér á landi þar sem Ísland fer nú með formennsku í Norðurlandaráði. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra stýrði ráðherrafundinum. Nokkrir ráðherranna voru farnir heim þegar blaðamannafundurinn var haldinn.
Samkvæmt fréttatilkynningu um fundina átti að ræða samstarf ríkjanna, viðbrögð við fjármálakreppunni, orkumál, umhverfismál í tengslum við loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Danmörku í desember, málefni Norðurslóða, ástandið í Afganistan, Pakistan, Íran, og víðar og Evrópusambandsmál en Svíar fara nú með formennsku í ESB og munu kynna helstu áherslumál sín.
Ráðherrarnir sem sóttu fundinn voru Per Stig Møller, Danmörku, Urmas Paet, Eistlandi, Alexander Stubb, Finnlandi, Maris Riekstinš, Lettlandi, Carl Bildt, Svíþjóð, Vygaudas Usackas, Litháen, og Elisabeth Walaas, aðstoðar-utanríkisráðherra Noregs.