„Snjallar raddir heyrast“

Alexander Stubb, utanríkisráðherra Finnlands
Alexander Stubb, utanríkisráðherra Finnlands mbl.is/Heiðar Kristjánsson

„Ákvörðunin um lán var mjög mikilvæg því við trúum af öllum hug á samstöðu norrænna þjóða. Íslendingar virðast vinna að því að uppfylla skilyrði lánsins svo við höfum ekki yfir neinu að kvarta á þessu stigi,“ segir Alexander Stubb, utanríkisráðherra Finnlands.

Hann vonast til að ákvörðun verði senn tekin á Alþingi vegna Icesave-skuldbindinganna þar sem vissulega tengist þau mál lánveitingum Norðurlandanna. „Ég las grein forsætisráðherra ykkar í Financial Times og þótti hún mjög góð og okkur þykir mikilvægt að boltinn fari að rúlla á Íslandi,“ segir Stubb.

„Hægt er að segja að þetta sé einskonar þríhyrningur, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Icesave og lán Norðurlandanna. Takast verður á við vissar skuldbindingar í þeim pakka og ég er vongóður um að á því finnist lausn.“

Röddin heyrist betur fyrir innan en utan

Stubb segist mjög ánægður með umsókn Íslands að Evrópusambandinu. „Því fyrr sem Ísland fær aðild að Evrópusambandinu því betra,“ segir Stubb.

„Snjallar raddir heyrast alltaf,“ segir Stubb aðspurður um hvort rödd Íslands muni kafna innan ESB. „Rödd ykkar heyrist mun betur fyrir innan en utan. Nú þegar á stór hluti löggjafar ykkar rætur innan sambandsins en þið sitjið ekki við borðið þegar ákvarðanir eru teknar.

En leiðin er löng. Það tók nærri þrjú ár frá því að Finnland lagði inn umsókn og þar til það var orðið aðildarríki. 350 síðna spurningalistinn sem framkvæmdastjórnin sendir mun reyna á stjórnsýsluna og það verður erfitt,“ segir Stubb.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær