Rætt um efnahagslegan stuðning frá ESB

Reuters

Íslenskir embættismenn eiga í viðræðum við Evrópusambandið um efnahagslegan stuðning sambandsins við Ísland. Frumkvæðið kom frá ESB í október, skömmu eftir bankahrunið. Fréttablaðið greinir frá þessu í dag.

Auk lánveitingar munu Íslendingar á næsta ári geta sótt um fyrirgreiðslu sem eitt þeirra ríkja sem sótt hefur um aðild að ESB.
ESB hefur veitt þeim ríkjum, sem eru í nánu samstarfi við sambandið og eiga í miklum efnahagserfiðleikum svokallaðan MFA-stuðning (Macro-financial assistance). Samkvæmt upplýsingum frá sendiráði ESB á Íslandi, sem er staðsett í Noregi, hefur svokallað MFA-lán til Íslands verið í undirbúningi í nokkurn tíma. Lánveitingin þarf samþykki ráðherraráðs ESB og Evrópuþingsins.

Að sögn Sveinbjörns Hannessonar, hjá sendiráði ESB, verður láni sambandsins ætlað að styðja við lánveitingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) og annarra aðildarríkja ESB til Íslands. Sveinbjörn gat ekki tjáð sig um fjárhæðir en sagði ekki „um að ræða sambærilega upphæð og Ungverjaland fékk". Ungverjaland fékk 6,5 milljarða evra lán frá ESB til viðbótar 12,5 milljarða evra láni frá AGS, samkvæmt frétt Fréttablaðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Innlent — Fleiri fréttir

Í gær

Mánudaginn 20. janúar