Fréttaskýring: Maraþonfundir í Brussel gætu hafist síðla í haust

Höfuðstöðvar Seðlabanka Evrópusambandsins (ECB) í Frankfurt.
Höfuðstöðvar Seðlabanka Evrópusambandsins (ECB) í Frankfurt.

Viðbrögð við ítarlegri greiningarskýrslu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um stöðu Íslands gagnvart aðild að sambandinu falla í gamalkunnan farveg. Stuðningsmenn aðildar telja skýrsluna jákvæða og minna á að hægt sé að semja um hvernig Ísland taki upp löggjöf sambandsins en andstæðingar segja hana staðfesta það sem þeir hafa áður sagt, þ.e. að Ísland verði að gera svo vel að aðlagast löggjöf ESB og allar undanþágur séu tímabundnar.

Reyna að semja um sérlausnir

Formaður samninganefndar Íslands, Stefán Haukur Jóhannesson, bendir á að orðalag í skýrslunni um að Ísland verði að gangast undir regluverk ESB, þ.ám. í sjávarútvegsmálum, þýði ekki að ekki sé hægt að semja. „Það er ekki hlutverk framkvæmdastjórnarinnar í þessari skýrslu að fara að tala um einhverjar sérlausnir. Auðvitað er það útgangspunktur þeirra að við aðlögumst regluverki ESB en við munum að sjálfsögðu ganga til þessara samninga með það markmið að ná fram sérlausnum og það vita ESB-ríkin að sjálfsögðu.“

Aðspurður sagði hann að ekki væri búið að festa samningsmarkmið niður á blað, að öðru leyti en því sem kæmi fram í áliti utanríkisnefndar um aðild. Þar er m.a. kveðið á um að yfirráð yfir auðlindum verði ekki látin af hendi. Stefán Haukur gerir ráð fyrir að samningaviðræður hefjist fyrir alvöru síðla næsta haust.

Staðfestir álit LÍÚ

Í skýrslunni er ítarlega fjallað um sjávarútveg og í Morgunblaðinu í gær sagði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra að það vekti sérsaka athygli að tekið væri fram hversu mikið vægi sjávarútvegur hefði hér á landi. ESB gerði sér grein fyrir sérstöðu landins.

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ), telur að greiningarskýrslan staðfesti álit LÍÚ um að Ísland verði að gangast undir sameiginlegu sjávarútvegsstefnuna, þó að hugsanlega verði veittar tímabundnar undanþágur eða frestir til aðlögunar. Hann sagði fráleitt að ætla að Íslendingar myndu hafa einhver áhrif á sjávarútvegsstefnu ESB. Hið mikla magn sem Íslendingar veiða og vægi sjávarútvegs í efnahag landsins skipti engu. „Þeir sem ráða eru þeir stóru,“ sagði hann. „Vægi atkvæða fer ekki eftir magninu sem þjóðir veiða.“

Ákvarðanir innan ESB eru alls ekki alltaf teknar með atkvæðagreiðslu heldur er frekar reynt að ná sem víðtækastri samstöðu.

Friðrik sagði að aðalmálið væri að fiskveiðistefnan væri sameiginleg og Ísland yrði að lúta henni. Dæmi um áhrifin af inngöngu væru þau að ef Ísland væri innan ESB hefði landið aðeins fengið leyfi til að veiða lítilræði af makríl. Í fyrra hefði ESB ætlað Íslandi 1-2.000 tonn en þá veiddu íslenskar útgerðir 116.000 tonn. „Og ef við værum með þetta regluverk yrðum við að henda þeim makríl sem við fáum sem meðafla við síldveiðar. Svo vitlaus er stefnan,“ sagði hann. Friðrik benti á að LÍÚ áætlar að útflutningsverðmæti makríls sem veiddur verður í sumar verði um 10-12 milljarðar króna.

Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði fátt koma á óvart í skýrslunni. Hann minnti á að Alþingi hefði sett skilyrði um samningsmarkmið, m.a. um full yfirráð yfir auðlindum.

Ofvöxtur er rótin

ESB segir að rót yfirstandandi kreppu sé að finna í ógætilegri útþenslu bankanna. Ástandið hafi orðið verra en ella þar sem ekki var nægjanlegt eftirlit með þeim. Sökum þess hversu margir opinberir aðilar báru ábyrgð á að setja reglur og fylgjast með bankakerfinu, hafi upplýsingaflæði ekki verið eins skjótvirkt og æskilegt hefði verið. Stofnanirnar hafi hvorki verið nógu fjölmennar, né með nægilega mikil völd, til að takmarka áhættusækni bankanna.

Ekki ágreiningur um fyrirvara við tilskipunina

Gangi Ísland í ESB yrði landið að innleiða svonefnda þjónustutilskipun ESB að öllu leyti, segir í greiningarskýrslu ESB um umsókn Íslands.

Ríkisstjórnin samþykkti í maí sl. að innleiða þessa tilskipun en með þeim fyrirvörum að réttindi á vinnumarkaði héldust og að ríki og sveitarfélög áskildu sér rétt til þess að reka heilbrigðisþjónustuna og í raun alla almannaþjónustu eftir sínu höfði. Norðmenn gerðu samskonar fyrirvara.

Framkvæmdastjórn ESB gerði engar athugasemdir við fyrirvara Íslands og Noregs, þar sem tilskipunin hefði ekki áhrif á vinnurétt og almannaþjónustu, skv. upplýsingum frá viðskiptaráðuneytinu.

Ögmundur Jónasson hefur gagnrýnt tilkipunina mjög. Í samtali við Morgunblaðið sagði Ögmundur að umrædd tilskipun væri ein af ástæðum þess að hann væri andvígur inngöngu Íslands í sambandið. „Þetta er markaðsvæðing og miðstýring í einni spyrðu og það er ekkert sérstakur kokteill,“ sagði hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Innlent — Fleiri fréttir

Í gær