Leiðtogar Evrópusambandsríkjanna munu jafnvel taka aðildarumsókn Íslands fyrir á fundi sínum í júní og ákveða um hvort formlegar viðræður verða teknar upp, samkvæmt upplýsingum frá spænskum stjórnvöldum sem fara með forsæti í framkvæmdastjórn ESB.
Framkvæmdastjórn ESB mælti með aðildarviðræðum við Ísland á fundi sínum í febrúar sl. en engin tímasetning var nefnd í því sambandi.
Miguel Angel Moratinos, utanríkisráðherra Spánar, sagði á fundi með blaðamönnum í dag að það komi til greina að ákveða með aðildarviðræður við Ísland á leiðtogafundinum um miðjan júní. Hann segist ekki telja að margt standi í veginum fyrir því.
Maros Sefcovic, sem sér um málefni stofnana ESB segir að hann finni fyrir traustum stuðningi við umsókn Íslands. Öll aðildarríkin 27 verða að samþykkja það að hefja viðræður við Ísland.