Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir rétt við núverandi aðstæður að leggja aðildarumsókn að Evrópusambandinu til hliðar.
„Ekki bara vegna framkominna hótana um að ekkert verði af samkomulagi nema við göngum að afarkostum Breta, heldur er líka mikilvægt að við nýtum alla okkar krafta til að sigrast á þeim efnahagserfiðleikum sem við er að glíma.
Þegar því verkefni er farsællega lokið verða allar forsendur fyrir hendi til að meta afstöðu okkar til aðildar á ný þar sem þjóðin hefur verið höfð með í ráðum. En ég vil jafnframt að eitt sé alveg skýrt hvað mögulegt framhald þessa máls varðar.
Ef viðræður við Evrópusambandið halda áfram þá er það skylda okkar að beita okkur af alefli fyrir því að hagsmuna Íslands verði gætt í hvívetna í viðræðuferlinu. Þá mun Sjálfstæðisflokkurinn gera allt sem í hans valdi stendur til að sá samningur sem kann að verða gerður við Evrópusambandið verji hagsmuni okkar Íslendinga sem allra best. Þjóðin tekur svo afstöðu til samningsins," sagði Bjarni á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem hófst klukkan 16:00 í Laugardalshöllinni.
Ekki þjóðremba heldur raunsætt mat
Bjarni segir fullyrðingu þeirra sem segja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi misst forystu sína í utanríkismálum þjóðarinnar ekki standast skoðun. Það sem sker úr um hvort flokkur hafi forystu í utanríkismálum, er ekki það hvort hann berst fyrir inngöngu í sífellt fleiri milliríkjasamtök.
Forysta felst miklu fremur í staðfastri afstöðu sem stenst dóm tímans og baráttu fyrir því að Ísland skipi sér á hverri tíð þar í sess meðal þjóða sem skapar landsmönnum mesta farsæld, að sögn Bjarna.
„Afstaða Sjálfstæðisflokksins á því ekkert skylt við einangrunarhyggju eða þjóðrembu. Hún byggir á raunsæu mati á því hvað þjónar hagsmunum Íslendinga best til langs tíma."