Evrópumálin holgrafa flokkinn

Þétt setinn bekkur á fundi VG í morgun. Ragnar Stefánsson …
Þétt setinn bekkur á fundi VG í morgun. Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur fremstur. mbl.is/Kristinn

Hart var deilt á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og aðildarumsókn Íslendinga að Evrópusambandinu í almennum stjórnmálaumræðum í morgun  á flokksráðsfundi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

Umræður um þessi efni hafa raunar verið rauði þráðurinn í máli fundarmanna sem margir hverjir hafa gagnrýnt forystu flokksins mjög. „Aðildarumsóknin er mein sem er að holgrafa flokkinn,“ sagði Hjörleifur Guttormsson fyrrverandi ráðherra í sinni tölu.

„Með aðildarumsókninni komu fyrstu brestirnir innan flokksins í ljós og sú staðfesta sem VG var þekkt fyrir hvarf,“ sagði Karólína Einarsdóttir. Hún sagði aðildarumsóknin dýru verði keypta og ástæðulaust væri að láta undan hótunum Samfylkingar samþykkti VG ekki áframhaldandi aðildarviðræður. Samstarfsflokkurinn ætti enda ekki í nein önnur hús að vernda léti VG stranda á þessu máli, væri Sjálfstæðisflokkurinn  ekki tilbúinn í Evrópuför.

Fleiri töluðu á þessum sömu nótum. Fyrir flokksráðsfundinum liggur ályktun þar sem skorað er á þingflokk VG að draga aðildarumsóknina að ESB til baka. Að þeirri umsókn standa nokkrir félagar úr grasrót flokksins, meðal annars af landsbyggðinni. Skv. heimildum Mbl. er reiknað með að ályktuninni verði breytt í sérstaka bókun og málið svo tekið til frekari umfjöllunar á haustdögum.

mbl.is

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag