Óvíst hvort annað tækifæri gefist

Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, á flokksfundi í Félagsheimili Seltjarnarness í …
Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, á flokksfundi í Félagsheimili Seltjarnarness í dag mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, segir að framundan sé umsóknarferlið um Evrópusambandið, baráttumál jafnaðarmanna um áratugi sem þurfi að nýta vel. „Mistakist okkur í þessu ferli núna er allsendis óvíst hvort og þá hvenær næsta tækifæri kemur."

Þetta kom fram í ræðu Jóhönnu á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í dag.

„Framundan er einnig það mikla verkefni að tryggja áframhaldandi frið á vinnumarkaði og sáttargjörð um áframhaldandi endurreisn. Flestir kjarasamningar eru lausir frá lokum þessa árs og vaxandi óánægju og óþreyju gætir augljóslega innan raða launþega og atvinnurekanda með ástand mála.

Þetta er ekki óeðlilegt, enda reynir á þolrif allra að takast á við vanda eins og þann sem við glímum við," segir Jóhanna.

Hún segir að eina leiðin út úr vandanum sé samstarf og sátt allra helstu aðila samfélagsins um áframhaldandi endurreisn. „Það er ekki valkostur að efna til átaka í þeirri stöðu sem Ísland er í – það á bæði við um stjórnmálaflokkana, aðila vinnumarkaðarins og ríki og sveitarfélög. Verkefni okkar er að ná sátt og sameinast um uppbygginguna sem framundan er," sagði Jóhanna ennfremur.

mbl.is

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær

Loka