Þrengir ekki stöðu Sjálfstæðisflokksins

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á landsfundi flokksins um helgina.
Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á landsfundi flokksins um helgina. mbl.is/Árni Sæberg

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafnar því á heimasíðu sinni í dag að flokkurinn hafi með ályktun sinni um Evrópumál um helgina þrengt stöðu sína eða vísað einhverjum á dyr sem hafi önnur sjónarmið. Í stjórnmálaályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins kemur fram skýr krafa um að umsóknin um aðild að Evrópusambandinu (ESB) verði dregin til baka án tafar auk þess sem áréttuð er sú stefna flokksins að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan sambandsins.

Einar segir að sú ályktun sem að endingu hafi verið samþykkt hafi verið í fullu samræmi við þá vinnu sem fram hafði farið í stjórnmálanefnd flokksins á landsfundinum og ennfremur í samræmi við það að þingmenn sjálfstæðismanna greiddu atkvæði gegn umsókninni á Alþingi sl. sumar.

„Þetta þrengir ekki stöðu Sjálfstæðisflokksins. Enginn stjórnmálaflokkur nema Samfylkingin, vill skilyrðislausa aðild að ESB. Vinstri grænir keyptu aðild að ríkisstjórn með Samfylkingu því verði að éta ofan í sig hugsjónir sínar. Hentu sem sagt ESB andstöðunni út í hafsauga og bera nú jafna ábyrgð á því máli og samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn. Þetta er núna að éta flokkinn innan frá, eins og allir sjá,“ segir Einar.

Samfylkingin einangruð

Einar segir að vinstri-grænir hafi kosið að skjóta Evrópumálunum á frest á flokksráðsfundi sínum um helgina af „ótta við að splundra ríkisstjórnarsamstarfinu“. Hann segir hins vegar ljóst að niðurstaðan hjá þeim sé fyrirsjáanleg og muni koma fram síðar.

„Nú er það Samfylkingin sem er komin í stöðu hins einangraða. Þeir eiga ekki samleið með nokkrum öðrum flokki í sambandi við ESB. Vilji þeir sitja í ríkisstjórn verða þeir að gera eins og VG. Éta ofan í sig ESB stefnuna. Það mun hann gera, sá valdasækni flokkur Samfylkingin. Engum dettur annað í hug,“ segir Einar.

Einar segir að lokum að það hafi verið styrkur Sjálfstæðisflokksins að virða ólíkar áherslur í einstökum málum. Sjálfstæðismenn viðurkenndu og virtu þá staðreynd að ólík sjónarmið væru til staðar innan flokksins í ýmsum málum, en það kæmi hins vegar ekki í veg fyrir að hann ályktaði með afgerandi hætti um þau.

Heimasíða Einars K. Guðfinnssonar

mbl.is

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær

Loka