Landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkti stjórnmálaályktun um helgina þar sem afdráttarlaus afstaða er tekin gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Í ályktuninni segir að Sjálfstæðisflokkurinn geri þá skýru kröfu að umsókn um aðild Íslands að ESB verði dregin til baka án tafar.
Þá mótmælti landsfundurinn vegferð ríkisstjórnarinnar inn í ESB, enda væri mikilvægara nú að stjórnsýslan setti alla sína krafta í að leysa aðkallandi hagsmunamál heimila og fyrirtækja, að því er fram kemur í ályktun fundarins.
Verði umsókn um aðild að ESB dregin til baka er óvíst hvort og þá hvenær næsta tækifæri til aðildar kemur. Þetta kom fram í máli Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra og formanns Samfylkingarinnar, á flokksráðsfundi sem haldinn var á laugardag.
Greina mátti á flokksráðsfundi VG að Evrópumálin kljúfa flokkinn niður í rót. Fram kom tillaga um að aðildarumsókn yrði dregin til baka. Samþykkt var hins vegar að fresta málinu til hausts og taka það þá fyrir á sérstöku málefnaþingi.