„Verðum að reyna að ná góðum samningi“

Adolf Guðmundsson formaður LÍÚ.
Adolf Guðmundsson formaður LÍÚ. Árni Sæberg

Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ, telur að fyrst ríkisstjórnin ætli ekki að draga umsókn um aðild Íslands að ESB til baka verði að leggja alla áhersla á að reyna að ná eins góðum samningi og mögulegt er.

„Ríkisstjórnin ætlar greinilega ekki að draga umsóknina til baka og þess vegna tel ég ekki raunhæft að reikna með að hætt verði við viðræður um aðild að ESB. Fyrst að ríkisstjórnin ætlar að halda þessu áfram tel ég nauðsynlegt að við verðum við borðið og reynt verði að ná eins góðum samningum og mögulegt er,“ segir Adolf.

Adolf sagðist eftir sem áður vera á móti aðild Íslands að ESB og hann sagðist ekki vera trúaður á að hægt verði að ná góðum samningi við sambandið fyrir íslenskan sjávarútveg. „Ég tel að best væri að hætta við þetta, en ég tel að það sé ekki raunhæfur kostur miðað við fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar.“

Adolf sagði að fulltrúar LÍÚ væru stöðugt að tala við þingmenn á Evrópuþinginu og sendinefndir ESB sem koma til landsins. LÍÚ ætti líka fulltrúa í undirnefnd um sjávarútvegsmál. LÍÚ væri því vel inn í málum.

Adolf sagðist ekki vera sáttur við hvernig stjórnvöld hafa haldið á málum í samskiptum við ESB. „Mér finnst vanta verulega upp á að menn hafi sett sér samningsmarkmið í viðræðum við ESB.“

mbl.is
Loka