„Ég tek bara undir með formanni Sjálfstæðisflokksins í þessu. Þetta eru upplýsingar sem þarf að skoða. Ég er sannfærð um það að þetta getur ekki annað en styrkt okkar málstað,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur staðfest í svari til Morgunblaðsins að engin ríkisábyrgð sé á bankainnistæðum samkvæmt tilskipun sambandsins um innistæðutryggingar sem innleidd var hér á landi fyrir rúmum áratug. Hins vegar heldur framkvæmdastjórnin því fram að Íslendingar eigi að greiða innistæðueigendum í Hollandi og Bretlandi vegna þess að innleiðingin á umræddri tilskipun hafi ekki verið með viðunandi hætti hér á landi.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins segir að af rangri innleiðingu tilskipunar geti skapast skaðabótaábyrgð, en dómsmál vegna þess yrði að höfða fyrir íslenskum dómstólum að sögn Stefáns Más Stefánssonar, lagaprófessors við Háskóla Íslands, eins og fjallað hefur verið um í Morgunblaðinu.
„En það sem mér finnst vera lykilatriði í þessu er að íslensk stjórnvöld verji málstað okkar Íslendinga. Það er sama hvað kemur upp á þá er eins og ráðamenn séu að tala máli okkar viðsemjenda. Þannig hefur þetta verið meira og minna til þessa. Þegar komið hafa fram einhverjar góðar fréttir sem hafa getað styrkt stöðu okkar í málinu hafa viðbrögðin verið þau að gera sem allra minnst úr því. Ef semja á um þetta mál verður að gera það með sanngjörnum hætti þannig að allir geti sæmilega við unað.“
Reynt að finna rök
„Þetta hljómar nú bara eins og einhverjir séu bara að leita dauðaleit að einhverjum rökum til þess að réttlæta það að við Íslendingar eigum að greiða þessa svokölluðu Icesave-skuld,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins. Hann segir að það hafi þannig ekkert breyst að því leyti að það hafi eins og áður engin rök komið fram sem sýna fram á það að íslenska ríkið beri ábyrgð í þessum efnum heldur þvert á móti.Gunnar Bragi segir að ef einhverjir vilji höfða skaðabótamál gegn íslenska ríkinu vegna þessa máls, Hollendingar, Bretar eða einhverjir aðrir, þá verði þeir einfaldlega bara að gera það. „Það er síðan alveg ótrúlegt hvernig stjórnvöld hafa haldið á þessu máli. Í stað þess að stökkva á öll rök sem geta orðið okkar málstað til framdráttar þá er haldið akkúrat öfugt á málum.“
Hins vegar segir framkvæmdastjórnin að tilskipunin hafi ekki verið rétt innleidd hér á landi fyrir rúmum áratug og því eigi Íslendingar að greiða Hollendingum og Bretum vegna Icesave-reikninga Landsbankans.
Þórunn segir að ef skoðun framkvæmdastjórnarinnar, eins og hún kemur fram í svari hennar, sé rétt þá hafi Eftirlitsstofnunin átt að gera íslenskum stjórnvöldum viðvart fyrir löngu.
„Eftirlitsstofnunin hefur mjög góða yfirsýn yfir innleiðingu gerða á Íslandi, fylgist vel með og sinnir sínu eftirlitshlutverki vel. Þess vegna verð ég að taka því með hæfilegum fyrirvara hversu ígrundað þetta svar er. Ég sé ekki að hægt sé að styðja þá fullyrðingu rökum að ekki hafi verið staðið rétt að þessu hér .“