Gætu „tekið Noreg á þetta"

Össur Skarphéðinsson, Steven Vanackere, utanríkisráðherra Belga og Stefan Füle, stækkunarstjóri …
Össur Skarphéðinsson, Steven Vanackere, utanríkisráðherra Belga og Stefan Füle, stækkunarstjóri ESB.

Norska dagblaðið Aftenposten fjallar í dag um aðildarviðræður Íslendinga við Evrópusambandið Þar segir að í Brussel óttist stjórnmálamennirnir að sagan af aðildarviðræðum Noregs endurtaki sig. Samningurinn verði felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og Norðmenn gerðu 1972 og 1994.

„Við óskum þess auðvitað að Ísland verði með í ESB, en ég held ekki að Íslendingarnir séu sama sinnis. Fleiri dæmi sýna það. Það er augljóslega stóra vandamálið. Við munum ekki þvinga þá til neins,” er haft eftir Evrópumálaráðherra Frakklands, Pierre Lellouche.

Vitnað er í Gallup kannanir hér á landi sem sýna að 60% landsmanna styðji ekki aðild en 26 prósent séu fylgjandi og 14 prósent séu óákveðin.

„Ég hef áhyggjur af skortinum á breiðri þjóðarsátt um aðild að ESB. Þetta sýnir að það er þörf fyrir meira af hlutlausum upplýsingum um ESB og stjórnmál sambandsins,” segir stækkunarstjórinn Stefan Füle.

Vitnað er í Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra um að Icesave-málið sé stærsta ástæðan fyrir andstöðu fólks við ESB hér á landi. Margir Íslendingar telji að Brussel hafi tekið afstöðu með Bretum og Hollendingum. Hins vegar er það opinber afstaða Framkvæmdastjórnar ESB að málið sé á milli landanna þriggja. Engu að síður líta menn svo á þar, að sögn Aftenposten, að Íslendingar verði að vera búnir að ljúka Icesave málinu áður en þeir geta fengið aðild að ESB.

Einnig er fjallað um fiskveiðar og hvalveiðar sem ásteytingarsteina á milli Íslands og ESB. Sambandið hafi gefið skýrt til kynna að Íslendingar muni ekki fá neina sérmeðferð. „Ísland verður að verða meðlimur með sömu skilyrðum og allir aðrir. Það geta ekki orðið neinar styttri leiðir í því sambandi,” segir Lellouche.

Rakið er í Aftenposten að ESB hafi haldið því fram að ekki verði hægt að bjóða Íslendingum varanlegar undanþágur frá sjáarútvegsmálum, en að hægt sé að ræða um aðlögunaraðgerðir. Nefnd eru dæmi um undanþágur sem önnur lönd hafi fengið. Svo sem um snus-sölu í Svíþjóð og nautaat á Spáni.

Aftenposten segir að Íslendingar óttist að hafið verði tæmt af fiski ef efnahagslögsagan verði opnuð upp á gátt. Fyrir þremur árum síðan kom fram sterk gagnrýni innan ESB á sjávarútvegsstefnu sambandsins og í fyrra kom út svokölluð grænbók um þá stefnu. Þar kemur fram að hún hafi reynst afar illa og að menn muni horfa í auknum mæli til norska og íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins. Umbætur á evrópska kerfinu eiga að fara í gang árið 2013.

Umfjöllun Aftenposten má lesa hér.

mbl.is

Innlent — Fleiri fréttir

Í gær

Mánudaginn 20. janúar