Lítill áhugi Íslendinga vekur athygli

Össur Skarphéðinsson í Brussel nýverið
Össur Skarphéðinsson í Brussel nýverið Reuters

Evrópskir stjórnmálamenn og blaðamenn sem hafa komið til Íslands undanfarna mánuði undrast hversu lítill áhugi Íslendinga og íslenskra þingmanna er á inngöngu í Evrópusambandið. Kemur fram í vefritinu EUTimes að Íslendingar hafi engan áhuga á að ganga inn í ESB og hafi aldrei átt að sækja um aðild.

Segir blaðið að undrun þeirra sé slík að þeir hafi í rauninni spurt íslenska þingmenn hvort það sé einhver alvara á bak við aðildarumsóknina. „Í rauninni er svo ekki. Þetta er í raun bjölluat. Það er enginn við hurðina þegar bjallan hringir og hurðin opnast," segir í grein í EUTimes sem byggð er á grein sem Hjörtur J. Guðmundsson skrifar í vefritið EU Observer og hefur birst víðar.

Vísvitandi logið

Kemur fram í greininni að það sé ástæða fyrir því að Íslandi hafi aldrei sótt um aðild að ESB. Það hafi aldrei verið almennur vilji meðal almennings að ganga í ESB sem nauðsynlegur er þegar sótt er um aðild og núverandi ríkisstjórn vissi og viti það. Samt sem áður var ESB vísvitandi sagt annað. Nú sé ESB að vakna upp við vondan draum og átta sig á því að Íslendingar hafi einfaldlega engan áhuga á að ganga inn í ESB. Umsóknin sé ekkert annað en marklaust plagg.

Í grein EUTimes er fjallað um niðurstöður skoðanakannanna á Íslandi sem sýni að mikill meirihluti þjóðarinnar vill ekki sækja um aðild að ESB og muni hafna aðildarumsókn í þjóðaratkvæðagreiðslu. Á Íslandi sé jafnvel viðskiptalífið á móti aðildarumsókn.

Segja að utanríkisráðherra hafi sagt ósatt í ræðu

EUTimes greinir einnig frá þeim ástæðum sem liggja að baki hjá Íslendingum þegar þeir vilji ekki ganga í sambandið. Er þar nefnt sjálfstæði þjóðarinnar og sjávarútvegsmálin.

„Íslenski utanríkisráðherrann hefur verið duglegur við að veita leiðandi einstaklingum innan ESB rangar upplýsingar um hina sönnu afstöðu Íslands. Hann flutti ræðu í Brussel daginn sem formlegar viðræður milli Íslands og ESB hófust og þar hélt hann því fram að ríkisstjórnin væri sameinuð á bak við umsóknina. Þann sama dag sagði landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherrann í íslenskum fjölmiðlum að stöðva ætti umsóknarferlið," segir meðal annars í grein EUTimes.

Hér er hægt að lesa greinina í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina