Þingmenn Sjálfstæðisflokksins í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, Einar K. Guðfinnsson og Jón Gunnarsson, hafa óskað eftir því að á næsta fundi nefndarinnar verði rætt um þætti er snúa að aðildarumsókn að Evrópusambandinu.
Þetta kemur fram í bréfi sem þeir hafa sent á formann sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, Atla Gíslason, og fjölmiðla.
„Nú liggur fyrir að Evrópusambandið hyggst láta verulega fjármuni af hendi rakna til Íslendinga vegna aðildarumsóknar ríkisstjórnarinnar að Evrópusambandinu. Samkvæmt þeim upplýsingum sem fram hafa komið munu þessir styrkir sem renna eiga til ýmissa verkefna nema um 4 milljörðum króna, en gert er ráð fyrir því að íslenska ríkið leggi til einn milljarð króna á móti.
Með þessum fjárveitingum er ljóst að Evrópusambandið freistar þess að hafa beina og óbeina íhlutun í þetta stórpólitíska deilumál með það að markmiði, annars vegar, að reyna að afla aðildarumsókninni og aðildarsamningi fylgis meðal íslensks almennings, og hins vegar, að auðvelda aðlögun Íslands að Evrópusambandinu.
Samkvæmt gögnum úr íslensku stjórnsýslunni liggur nú fyrir skipulag í tengslum við stuðningsaðgerðir ESB vegna umsóknar Íslands að Evrópusambandinu, en skipulagið mun hafa verið samþykkt á síðasta fundi ráðherranefndar um Evrópumál.
Samkvæmt því er gert ráð fyrir að verkefnaumsóknir um svokallaða IPA styrki (Instrument for Pre-Access Assistance) fari til umfjöllunar í sérstökum IPA stoðhópi sem forsætisráðuneytið leiðir. Jafnframt er gert ráð fyrir að hópur ráðuneytisstjóra myndi IPA samráðsnefnd sem fer yfir þau verkefni sem stoðhópur IPA leggur til að far í umsóknarferli hjá Evrópusambandinu."
Samkvæmt upplýsingum okkar var gert ráð fyrir að öll ráðuneyti skiluðu tillögum að verkefnum til IPA stoðhópsins eigi síðar en föstudaginn 20. ágúst sl. Þær tillögur ættu því að liggja fyrir.
Í framhaldi af innsendingu umsókna mun IPA stoðhópurinn fara yfir allar umsóknir, flokka þær og mögulega sameina í þeim tilgangi að frá Íslandi fari ekki fleiri en 5 – 10 umsóknir. Að því búnu verði umsóknirnar lagðar fyrir hóp ráðuneytisstjóra og í framhaldinu Ráherranefnd um Evrópumál.
Framkvæmdastjórn ESB mun hafa óskað eftir því að tillögur að verkefnum liggi fyrir eigi síðar en 1. september 2010. Í framhaldi er gert ráð fyrir að samráðsferli hefjist sem geti tekið nokkurn tíma en innan stjórnsýslunnar íslensku er lögð á það áhersla að það sé framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ákveði að loknu því samráði hvaða verkefni verði fyrir valinu.
Okkur er ekki kunnugt um að þessi mál hafi verið tekin til umræðu innan fastanefnda Alþingis, heldur séu þau nú einvörðungu rædd og að þeim unnið á vettvangi stjórnarráðsins.
Samkvæmt þeim gögnum sem við höfum undir höndum er gert ráð fyrir að tiltekin verkefni hljóti beinan fjárstuðning, en eitt þessara verkefna lýtur að undirbúningi fyrir sjóði í landbúnaði og sjávarútvegi.
Í ljósi þess að tillögur að verkefnum eiga nú að hafa borist forsætisráðuneytinu frá öðrum ráðuneytum, sbr. hér að ofan, og þar sem þau eiga samkvæmt skipulaginu að varða það málasvið sem sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis hefur með höndum óskum við undirritaðir, fulltrúar þingflokks Sjálfstæðisflokksins í sjávarútvegs og landbúnaðarnefnd Alþingis eftir því að þessi mál verði tekin til umræðu á næsta fundi nefndarinnar og að á þeim fundi verði lagðar fram upplýsingar um hvaða tillögur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið lagði fram í tengslum við þessar verkefnaumsóknir," segir í bréfi sem þingmennirnir skrifa undir.