Telur að um misskilning sé að ræða

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segist telja að um misskilning sé að ræða hjá Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um að aðlögunarferlið að Evrópusambandinu sé hafið. Hann segir að þetta verði hins vegar að skoða frekar. 

Þetta kom fram í máli Steingríms á fundi hans og Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, með fjölmiðlum að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun. 

Jón segir í Morgunblaðinu í dag að erfitt sé að túlka minnisblað ráðuneytisstjóra um stöðuna í undirbúningi fyrir ESB-aðildarviðræður um landbúnað á annan hátt en að aðlögunarferli Íslands að Evrópusambandinu sé hafið.

Telur Steingrímur að einungis sé um undirbúning að því hvernig beri að bregðast við ef tekin er ákvörðun um að ganga inn í ESB. En þetta þurfi að fara yfir og skoða betur. 

Ef þetta er hins vegar rétt hjá Jóni að um aðlögunarferli sé að ræða þá segist Steingrímur ekki vera sáttur við slíkt. 

Jóhanna ræddi við Jón Bjarnason í morgun og segir að væntanlega hafi verið um misskilning að ræða hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherranum. Hún lýsti yfir vonbrigðum sínum með að ráðherra í ríkisstjórninni væri að gefa slíkar yfirlýsingar í fjölmiðlum. Yfirlýsingar sem væru ekki í takt við það sem kæmi fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og samþykkt Alþingis.

Að sögn Steingríms er ekki komin dagsetning á fyrirhugaðar Icesave-viðræður en stefnt er að fundi í september.

mbl.is

Innlent — Fleiri fréttir

Í gær

Mánudaginn 20. janúar