Við erum í inngönguferli og það verður raunverulega næstum allt afstaðið þegar við kjósum um samninginn,“ segir Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands.
Bændasamtökin standa á því fastar en fótunum að aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið séu í raun og veru aðlögun stjórnsýslu og löggjafar á ýmsum sviðum að reglum sambandsins á meðan samningaviðræðurnar standa yfir.
Hafa samtökin enn á ný vakið athygli á þessu með því að senda utanríkisráðherra og utanríkismálanefnd bréf þar sem þess er krafist að staða landbúnaðarins í samningaferlinu verði skýrð. Taka verði af allan vafa um að ekki komi neins konar aðlögun til álita fyrr en gengið hefur verið frá aðildarsamingum með stjórnskipulegum hætti.
Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins er unnið að svarbréfi til Bændasamtakanna í utanríkisráðuneytinu.
Deilur um hvort aðlögunarferlið sé í raun og veru hafið eða hvort eingöngu er um undirbúning að ræða í aðildarviðræðunum við ESB hafa komið upp með reglulegu millibili á umliðnum mánuðum. Á minnisblaði ráðuneytisstjóra sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins í seinasta mánuði er fullyrt að samningaferlið um ESB-aðild muni krefjast þess að farið verði fljótt að undirbúa aðlögun landbúnaðarstefnu Íslands að landbúnaðar- og dreifbýlisstefnu ESB.
Haraldur segir að þvert á fullyrðingar utanríkisráðherra um að engar breytingar verði gerðar á löggjöf eða stofnunum fyrr en úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild liggi fyrir, þurfi ekki að leita lengi í efni frá ESB til að sjá hið gagnstæða. Einnig hafi sendinefndir sem fulltrúar bænda hafa tekið á móti ekki dregið neina dul á það.
Þegar aðildarviðræðunum var ýtt úr vör á ríkjaráðstefnunni 27. júlí sl. kynnti ESB almenna afstöðu til viðræðnanna. Þar er á nokkrum stöðum fjallað um undirbúning Íslands og eftirlit ESB með framvindu hans. „Rétt innleiðing Íslands á regluverkinu og framkvæmd þess, þ.m.t. árangursrík og skilvirk beiting af hálfu viðeigandi stofnana á sviði stjórnsýslu og dómsmála, mun ákvarða hversu hratt samningaviðræðurnar ganga fyrir sig,“ segir þar. Samningaviðræðurnar muni grundvallast á stöðu Íslands og hraði þeirra ráðast af því hve vel Íslandi tekst að uppfylla kröfur vegna aðildar. Framkvæmdastjórnin muni fylgjast náið með framvindu Íslands á öllum sviðum og upplýsa um framvinduna meðan á samningaviðræðum stendur.
Rýnivinna í nóvember