Norsk yfirvöld hafa fengið Eirík Bergmann, doktor í stjórnmálafræði, til að vinna úttekt á EES-samningnum en norska ríkisstjórnin hefur ákveðið að hefja allsherjarúttekt á stöðu EES-samningsins.
Ætlunin er að fara ofan í saumana á áhrifum samningsins fyrir norskt samfélag frá gildistöku hans í ársbyrjun 1994.
„Hverjum steini í samskiptum Noregs, Íslands og Lichtenstein við Evrópusambandið verður velt við í viðamestu rannsókn á EES-samningnum sem fram hefur farið," segir í tilkynningu frá Háskólanum á Bifröst.
Eiríkur er forstöðumaður Evrópufræðaseturs og dósent í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst. Hann mun rannsaka, fyrir norsk stjórnvöld, áhrif EES-samningsins á íslenskt samfélag og er áætlað að þeirri vinnu ljúki á næsta ári.