„Mér líst mjög vel á þetta. Þetta er mjög spennandi kostur,“ sagði Ingvar Jónsson, einn efnilegasti knattspyrnumarkvörður landsins, sem mun á næstu dögum skrifa undir samning til þriggja ára við Stjörnuna.
Ingvar, sem er 21 árs gamall og á að baki einn leik fyrir U21-landslið Íslands og þrjá fyrir U19-liðið, hefur leikið með Njarðvík í 1. og 2. deild þrjár síðustu leiktíðir. Hann hefur vakið athygli fjölda félaga og var eftirsóttur nú eftir að síðasta keppnistímabili lauk.
„Það höfðu nokkur félög samband, þrjú úr úrvalsdeildinni og svo einhver úr 1. deildinni, en mér leist allan tímann langbest á Stjörnuna,“ sagði Ingvar.
Nánar er rætt við Ingvar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.