Matthías Ingiberg Sigurðsson klarinettuleikari sigraði í úrslitakeppni í alþjóðlegri klarinettkeppni sem fram fór á Kýpur í dag. Matthías sagði að keppnin hefði verið jöfn, en hann væri ánægður með sigurinn.
Matthías er 21 árs og stundar nú framhaldsnám í tónlist við Tónlistarháskólann í Amsterdam þar sem hann hóf nám sl. haust. Hann var m.a. einn af „ungum einleikurum“ Sinfóníuhljómsveitar Íslands á síðast ári.
Matthías sagðist ekki hafa vitað við hverju hann hefði átt að búast þegar hann fór í keppnina, en hann sagðist þeir sem kepptu við hann hefðu verið mjög góðir. Fjórir komust í úrslit en einn keppandi hætti við að spila. Hinir voru frá Póllandi og Grikklandi.
Keppendur spiluðu þrjú lög í keppninni, eitt sem dómarar völdu, eitt var úr lagalista sem keppendur máttu velja sér og eitt var sjálfvalið. Matthías sagði að mikil vinna lægi að baki svona keppni.
Matthías sagðist vera ánægður með námið við Tónlistarháskólann í Amsterdam. Þetta væri góður skóli og hann væri með frábæra kennara.