Kristjana Friðbjörnsdóttir hlaut í dag barnabókaverðlaun menntaráðs Reykjavíkurborgar fyrir bókina Flateyjarbréfin sem JPV gaf út, að því er segir í tilkynningu frá menntasviði Reykjavíkurborgar.
Verðlaun fyrir þýðingu komu í hlut Böðvars Guðmundssonar fyrir norræna smásagnasafnið Elskar mig – elskar mig ekki, sem Mál og menning gaf út með styrk frá Norrænu ráðherranefndinni.
Í umsögn valnefndar um verðlaunabókina Flateyjarbréfin segir m.a.:
„Flateyjarbréfin er bók sem kemur skemmtilega á óvart, hún er full af fróðleik og góðum boðskap. Jafnvel þótt maður klúðri hlutunum í hugsunarleysi má alltaf bæta fyrir brot sín. Söguna alla einkennir bæði hressilegur og léttur tónn.“
Í umsögn um þýðingu barnabókarinnar Elskar mig – elskar mig ekki segir m.a.:
„Í kraftmiklum smásögum fá ungir lesendur innsýn í líf unglinga í átta norrænum löndum. Þýðandinn nær að fanga stíl og sérkenni hvers höfundar á látlausan hátt og er jafnframt óhræddur við að nota slangur og orðfæri sem flestum unglingum er tamt.“
þetta er í 39. sinn að yfirvöld menntamála í Reykjavík verðlauna rithöfunda og þýðendur fyrir afburðagóðar barnabækur.